150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

rafræn birting álagningarskrár.

110. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hefur fólk í auknum mæli gert sér grein fyrir því að ein af þeim leiðum sem við höfum til þess að byggja upp traust í samfélaginu er að auka gagnsæi um það sem áður fyrr átti sér stað bak við luktar dyr. Þetta hefur Alþingi t.d. sýnt með eigin verkum með því að gera launa- og kostnaðargreiðslur þingmanna margfalt gagnsærri en þær voru fyrir örfáum árum þannig að nú getur hver sem er flett því upp á vef Alþingis hversu miklu er kostað til hvers og eins okkar sem hér störfum.

Gagnsæið var samt ekki fundið upp í gær og það er þess vegna dálítið skemmtilegt að líta til þess að um nokkuð langt árabil hefur verið hægt á hverju ári að fletta upp í álagningarskrám skattstjóra hverjar tekjur hvers og eins skattgreiðanda hér á landi hafa verið undanfarið tekjuár. Hins vegar, vegna þess að það er gömul lagaheimild fyrir birtingu álagningarskrár, er birtingarformið sem var bundið í lög fyrir réttum 40 árum komið nokkuð til ára sinna og farið að bera þess merki hversu gamalt það er. Núna kemur álagningarskráin fyrir sjónir almennings annars vegar á pappír á skrifstofu skattstjóra í þykkum innbundnum gormamöppum þar sem fólk getur staðið í röð til að sitja yfir pappírunum og fletta þeim um það tveggja vikna skeið sem skrárnar eru aðgengilegar samkvæmt lögum. Hitt birtingarformið er í blöðum eins og tekjublaði Frjálsrar verslunar þar sem valdir eru ákveðnir einstaklingar og dregnir sérstaklega fram til að sýna hverjar tekjur þeirra voru undanfarið ár.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir snýst um að gera ekki endilega eðlisbreytingu á þessari birtingu heldur einfaldlega að færa hana til nútímalegra horfs, gera birtingu álagningarskrár rafræna. Með þessu tel ég lögin færast nær því að sýna skrárnar á hentugum stað eins og það heitir í lögunum í dag vegna þess að hentugur staður í dag er ekki pappír hjá skattstjóra heldur netið sem við höfum öll í höndunum daginn út og inn.

Það mætti svo sem taka smástund í að ræða tilgang þess að halda þessum skrám aðgengilegum. Þetta er framkvæmd sem er sameiginleg og með svipuðum hætti á öllum Norðurlöndunum sem eiga það sameiginlegt að reka víðtækt velferðarkerfi og öflugar stofnanir í almannaþjónustu, sem er líka lykilþáttur í því að byggja upp það félagslega traust sem ríkir í þessum löndum og sem er eitt helsta einkenni Norðurlandanna, það að við getum treyst hvert öðru. Hluti af því er ekki endilega að fletta upp nágrannanum heldur að geta það. Gagnsæið er nefnilega þannig að það þarf ekki endilega að nota gögnin heldur að þau séu á hlaðborði til að vera skoðuð. Það byggir upp traustið og viðheldur því. Í samfélögum eins og okkar á Norðurlöndunum eru skattgreiðslur í raun ekki einkamál greiðenda heldur lögbundin samfélagsleg skylda og þess vegna hefur sú leið verið valin að birta upplýsingar um þær á einhvern hátt. Í dag er það þannig að í það minnsta þrjú Norðurlandanna hafa farið þá leið að birta upplýsingarnar á einhvern hátt rafrænt, Svíþjóð, Finnland og Noregur. Það er kannski helst að við getum litið til Noregs þar sem skattskráin hefur verið opinber svo lengi sem frá árinu 1863 og aðgengileg rafrænt frá árinu 2004. Norðmenn hafa gengið í gegnum það að þróa þessa birtingu þannig að hún uppfylli þau skilyrði sem persónuvernd gerir t.d. Norski skatturinn skráir til að mynda allar uppflettingar þannig að gagnsæið gengur í báðar áttir. Ef ég fletti einhverjum upp fær viðkomandi að vita að ég hafi flett honum upp. Þar með er á vissan hátt girt fyrir mögulega misnotkun á þessum aðgangi.

Það sem væri áhugavert að skoða við vinnslu þessa máls í framhaldinu er hvernig væri hægt að þróa þetta verkfæri til að þjónusta almenning enn frekar. Íslenskir fjölmiðlar sinna ákveðnu þjónustuhlutverki með þessum tekjublöðum, svo langt sem þau ná. En hvernig væri t.d. ef hægt væri að útbúa sérstakan aðgang fyrir aðila vinnumarkaðarins til að leggjast í greiningar á ákveðnum geirum vinnumarkaðarins? Við höfum séð það hvernig vefurinn tekjusagan.is hefur nýst við að sýna fram á þróun hjá fólki eftir þjóðfélagsstöðu en það væri hægt að draga fram aðra þætti í þeim ríka grunni upplýsinga sem liggur í álagningarskrám skattstjóra. Þetta þyrfti þó að sjálfsögðu að skoða mjög varlega og vandlega út frá persónuverndarsjónarmiðum og meðalhófi.

Þetta mál hefur verið lagt fram á þremur þingum áður, á 147., 148. og 149. löggjafarþingi. Í eitt af þeim skiptum náði ég að mæla fyrir því, fyrir réttum tveimur árum. Þá gekk málið til nefndar og kom inn umsögn frá ríkisskattstjóra þess efnis að tæknilega séð væri því ekkert til fyrirstöðu að hrinda þessu verkefni í framkvæmd. Það eina sem þyrfti að gera væri að ákveða á vettvangi pólitíkurinnar hvort rétt væri að gera svo. Í millitíðinni hefur sitthvað gerst í þessum málum og ber þar helst að nefna vefinn tekjur.is þar sem einkaaðili gerði aðgengilegan gagnagrunn með upplýsingum um skattskrár fyrir árið 2016. Sá vefur var tekinn niður skömmu eftir að hann fór í loftið þar sem ekki væri heimild í tekjuskattslögum fyrir uppsetningu og rekstri rafræns gagnagrunns tiltekins fyrirtækis með þessum hætti. En það sem þessi tillaga snýst um er að fela ráðherra að hlutast til um rafræna birtingu á vegum skattyfirvalda þannig að það sé hægt að halda nokkuð vel utan um þetta, að við séum ekki að fela einkaaðilum gagnagrunninn í heild sinni heldur geti hið opinbera haft ákveðið taumhald á grunninum þannig að gætt sé hagsmuna þeirra sem eiga upplýsingar í honum. Frá því að þetta mál var síðast rætt hér í sal hefur líka verið samþykkt ný löggjöf um persónuvernd sem að sjálfsögðu þyrfti að taka vel til skoðunar í samhengi við breytingar af þessu tagi. En þar hef ég ekki gríðarlegar áhyggjur í ljósi þess að, eins og ég nefndi áðan, í það minnsta þrjú Norðurlandanna eru með sambærilegan aðgang að svipuðum upplýsingum um sína borgara og sama persónuverndarregluverk og hér gildir. Þetta þyrfti allt saman bara að skoða með hliðsjón af framkvæmd og þróun kannski sérstaklega hjá norskum skattyfirvöldum og í framhaldinu væri síðan hægt að leggja fram frumvarp þess efnis að gera þessa birtingu mögulega.

Rétt að síðustu má ég til með að nefna ályktun sem var samþykkt á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins í ágúst sl., um það leyti sem þetta mál birtist á vef Alþingis, þar sem Alþingi er hvatt til þess að samþykkja að birta álagningarskrár með rafrænum hætti þar sem birtir eru allir álagðir skattar þannig að aðgengi að þessum samfélagslega mikilvægu upplýsingum sé tryggt, eins og stendur í ályktun miðstjórnar. Þar kemur einmitt fram, sem þyrfti jafnframt að skoða mjög vandlega, hvaða upplýsingar það væru sem ættu erindi í þessa birtingu til þess að hún þjóni sem mestum tilgangi. Það skipti t.d. miklu máli að fjármagnstekjur komi skýrt fram í samfélagi þar sem fjármagnstekjur eru stór hluti tekna ákveðinna hópa í samfélaginu.

Þetta er allt saman eitthvað sem ég treysti efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða núna í framhaldinu þegar hún fjallar um þessa þingsályktunartillögu og, að því gefnu að málið hljóti jákvæða afgreiðslu endanlega í þingsal, að fjármála- og efnahagsráðherra fari vandlega yfir málið og leggi fram frumvarp sem nær vel utan um þetta allt saman.