150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

skatteftirlit.

[10:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum, í frumvarpi sem liggur fyrir þinginu, þegar ákveðið að hætta álagningu í málum sem eiga að fara í refsimeðferðarfarveginn. Með því eigum við þegar að hafa brugðist við þeim ábendingum sem okkur hafa borist í gegnum niðurstöður Mannréttindadómstólsins. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að oft geta verið tengsl á milli ólíkra brota, þ.e. eitt og sama málið getur falið í sér slóð brota. Við höfum verið að efla stjórnkerfið í að rannsaka peningaþvættismál. Aukin framlög til skattrannsóknarstjóra eru t.d. vegna þess að þangað berast í stórauknum mæli tilkynningar víða að úr kerfinu, m.a. vegna aukinnar meðvitundar um mikilvægi þess málaflokks og það hefur skapað álag sem við þurfum að mæta með auknum mannskap. (Forseti hringir.) Ég vil bara vekja athygli á þeim meginniðurstöðum sem er að finna í skýrslunni sem þegar hefur verið birt. Það er verið að vinna þetta mál áfram og ég (Forseti hringir.) vonast til þess að koma með frekari svör í frumvarpi á haustþingi.