150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

samanburður á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi.

550. mál
[11:41]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég þakka hv. skýrslubeiðendum fyrir að staðfesta allt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði þegar hann vísaði til þess að þetta væri popúlismi. Ræður þeirra eru þannig að enginn velkist í vafa um að um slíkt er að ræða. Hins vegar skiptir miklu máli sá réttur þingmanna að geta beðið um skýrslur og ég tek undir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði, þetta er að verða svolítið sérstakt svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það skiptir máli fyrir okkur hvernig við förum fram með þennan sjálfsagða rétt þingmanna.

Menn bera líka ábyrgð sem leggja fram skýrslubeiðnir. Ég veit ekki hvort þessi umræða er búin eða hvort hún mun þróast áfram en hér er m.a. dregin inn skýrslubeiðni sem var beint til mín um EES. Málið er einfalt, lesið skýrsluna og þá sjá menn að þær yfirlýsingar sem hér hafa fallið standast ekki nokkra skoðun. Þó að (Forseti hringir.) menn séu ósammála einhverju getur það ekki verið ámælisvert að draga fram staðreyndir. Það getur ekki verið ámælisvert en það er það sem er gert í þeirri skýrslu. Svo eru menn með mismunandi skoðanir á því hvað eru kostir og hvað eru gallar.