150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Við meðferð þessa frumvarps kemur fram mikil gagnrýni, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, á 5. gr. sem fjallar um fyrirhugaða meðferð óbyggðanefndar á landsvæðum utan strandlengju meginlandsins, þ.e. á svokölluðum strandjörðum, sjávarjörðum. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þau ummæli sem koma fram t.d. í umsögn Samtaka eigenda sjávarjarða sem furða sig á þeirri vinnu og þeim vinnubrögðum sem standi að baki frumvarpinu og vísa þá, eins og hv. þingmaður nefndi í framsögu sinni, sérstaklega í Jónsbókarákvæði frá 1281 um dýptarreglu. Telur hv. þingmaður ekki að það sé áhyggjuefni að fara í þessa vegferð þegar svona afdráttarlausar umsagnir berast í þá veru að það sé hreinlega verið að ganga á stjórnarskrárbundinn rétt eigenda sjávarjarða?

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er ekki nauðsynlegt að reyna að ná sátt í málinu og þá við eigendur sjávarjarða frekar en að fara í þessa vegferð? Ég minni á að samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 1996 var ótvírætt að við ákvörðun netlaga með hliðsjón af fiskveiðirétti landeigenda ber að miða við þá dýptarreglu sem var nefnd áðan í Jónsbókarákvæðinu. Mér fannst líka athyglisvert það sem hv. þingmaður nefndi áðan þegar hún sagði að það kynni að vera að eigendur sjávarjarða ættu rétt. Mér finnst eins og hv. þingmaður sé að draga það í efa og það finnst mér áhyggjuefni. Erum við þá kannski komin í þá vegferð að nú þurfi eigendur sjávarjarða að fara að sanna sinn rétt sem þeir hafa réttilega átt síðan 1281?