150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[15:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af þeim orðaskiptum sem hér hafa átt sér stað vildi ég geta þess að það var rætt í nefndinni áður en málið fékk endanlega afgreiðslu í síðustu viku að það kæmi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr., m.a. til að fjalla um þau álitamál sem hv. þm. Birgir Þórarinsson nefnir hér og þær athugasemdir sem lúta að stöðu sjávarjarða og þeim réttindum sem þeim fylgja.

Önnur atriði sem koma til umfjöllunar í nefndinni varða m.a. ráðstöfun þess fjár sem aflast vegna nýtingar sem bent er á í a.m.k. einni umsögn að er nokkuð á skjön við það sem upphaflega var ætlað þegar þjóðlendulögin voru sett 1998, þ.e. að arðurinn af nýtingu þeirra rynni til þjóðlendnanna sjálfra. Í millitíðinni hafa auðvitað átt sér stað breytingar á lögum um opinber fjármál sem með einhverjum hætti kunna að hafa áhrif á þetta og án þess að nefndin hafi tekið afstöðu til þess hvernig hún hyggst meðhöndla þetta álitamál er þetta líka atriði sem hún telur tilefni til að fjalla um milli 2. og 3. umr.

Ég geri ekki sérstaka kröfu um það að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir bregðist við þessu andsvari mínu eða svari því. En ég vildi bara á þessum stað í umræðunni koma því á framfæri að ætlunin er að taka þessi álitamál til frekari skoðunar milli 2. og 3. umr. og í samhengi við þá umfjöllun koma auðvitað þær athugasemdir sem koma fram í umræðunni í dag til skoðunar ef tilefni er til.