150. löggjafarþing — 68. fundur,  3. mars 2020.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[16:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sérstakur áhugamaður um nýsköpun á nánast öllum sviðum mannlífsins og jafnvel í lagatúlkunum. Þó verð ég að játa að ég er pínulítið hissa á að heyra hv. þingmann, löglærðan, koma með það sem ég get ekki skilið öðruvísi en að sé fullkomleg nýsköpun í túlkun á ákvæðum Jónsbókar. Eins og skýrt hefur komið fram í umræðunni snúast þau ákvæði um fiskveiðiréttindi. Þess vegna velti ég fyrir mér í hvaða tilgangi hv. þingmaður þræðir sig hér möskva frá möskva, eins og í risastóru neti, eftir þeirri röksemdafærslu að hér sé mögulega verið að ganga gegn þeim ákvæðum. Heldur hv. þingmaður að þetta mál snúist um fiskveiðiréttindi? Þar sem hv. þingmaður er löglærður get ég ekki annað en leyft mér, forseti, að spyrja: Telur hv. þingmaður að það að ekki sé sérstaklega bent á eitthvað í lögum, eigum við að segja Jónsbók, þýði að þau séu fallin úr gildi? Er það svo einfalt að fella úr gildi forna lagabálka að nóg sé að sleppa þeim úr upptalningu í öðrum lögum?