150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég eins og fleiri varð hugsi í gærkvöldi eftir umfjöllun Kveiks um fátækt á Íslandi. Fátækt er meinsemd sem á ekki að líðast í okkar ríka samfélagi. Ástæðurnar fyrir því að fólk missir fótanna eru auðvitað margvíslegar en sama hvernig gefið er í upphafi, sama hvaða áföll dynja yfir, þá á hið félagslega net okkar að grípa fólk, hjálpa því að komast á fætur og sjá til þess það geti lifað með reisn. Að búa í hjólhýsi í köldu landi um vetur uppfyllir ekki þau skilyrði.

Ég hyggst leggja fram fyrirspurn til félags- og barnamálaráðherra um það hversu margir eru í þeirri stöðu að vera búsettir á Íslandi en búa í húsnæði sem er ekki skráð í fasteignaskrá. Ég tel mikilvægt að við veltum fyrir okkur hvernig við getum komið sem best til móts við þennan hóp þannig að allir hér á landi hafi kost á viðunandi húsnæði. Það á ekki að skipta máli í hvaða sveitarfélagi maður býr þegar kemur að því hvernig hið félagslega net virkar, eins og kom fram í gær. Áskorunin er auðvitað sú hvort við getum borið gæfu til þess saman að finna leiðir þannig að Ísland sé ekki bara ríkt samfélag heldur líka réttlátara samfélag þar sem öryggisnetin grípa þá sem hrasa, þar sem allir landsmenn eiga í öruggt hús að vernda, þar sem börn alast ekki upp við skort og þrúgandi áhyggjur.

Þetta réttláta samfélag er ekki verkefnið sem klárast. Það er áskorun sem endurnýjast í sífellu. Við stefnum í rétta átt á þessu kjörtímabili með hækkun barnabóta um hundruð þúsunda til fjölskyldna með lægstu tekjurnar, með breytingum á skattkerfi og með aðgerðum á sviði húsnæðismála, margt sem hefur nú þegar skilað árangri. Tilkoma óhagnaðardrifinna leigufélaga og stóraukið samstarf ríkis og sveitarfélaga á sviði húsnæðismála hefur létt á þrýstingnum á húsnæðismarkaði en við erum ekki komin í mark því að markið færist. Ríki og sveitarfélög þurfa í sífellu að endurmeta aðgerðir þannig að hægt sé að koma til móts við þann hóp sem hefur í engin hús að venda eða býr í ósamþykktu og óásættanlegu húsnæði, þannig að félagslega kerfið okkar dugi til þess að ná settum markmiðum, þannig að enginn þurfi að festast í fátæktargildru. Ég hef ekki lausnina en með því að leggja við hlustir, með því að fara að ráðum þeirra sem best til þekkja um hvernig við drögum úr fátækt tel ég að við getum færst nær því réttláta samfélagi sem Ísland á að sjálfsögðu á að vera.