150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:06]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra. Hv. þingheimur. Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá hér sérstaka umræðu um málefnið bætt uppeldi, leið til forvarna og bættrar lýðheilsu. Uppeldi barna ber ekki oft á góma í þingsal en mér finnst kominn tími til að ræða eitt brýnasta starf okkar allra sem eigum börn eða eigum samskipti við börn og unglinga, enda er uppeldi grunnur að velferð fólks. Allt of oft færa fjölmiðlar okkur fréttir af vanlíðan fólks, ofbeldi, heimilisofbeldi, eiturlyfjaneyslu ungs fólks, kulnun, sjúkdómum sem kenndir eru við lífsstíl og fleira mætti telja.

Nýlega var fjallað um gróft ofbeldi sem átti sér stað í Kópavogi þegar tugir unglingsdrengja létu barsmíðar og spörk dynja á jafnaldra af erlendum uppruna. Hvað getum við gert? Hvernig má það vera að ungmenni hagi sér með þessum hætti? Múgæsingur. Skýringar eru án efa margar, bæði persónubundnar, þ.e. ráðast af persónuleika og skapgerð hvers og eins, en getur verið að ofbeldishegðun eigi sér rætur í þeim fyrirmyndum sem birtast í umhverfinu? Já, umhverfið sem við ölumst upp í og þeir uppeldishættir sem við búum við skapa sjálfsmynd okkar og sýn á það hver við erum og hvernig við eigum að hegða okkur. Foreldrar og aðrir uppalendur, kennarar og vinir geta markað spor og haft áhrif á það hvernig manneskjur við verðum. Fjölmiðlar og persónur úr bíómyndum og tölvuleikjum geta líka haft áhrif.

Tabula rasa, óskrifað blað, eru orð sem oft eru kennd við raunhyggjumanninn John Locke, en hann gekk út frá því árið 1690 að við fæðingu væri mannshugurinn óskrifað blað og að reynslan myndi móta einstaklinginn. Það er nokkuð til í því. Nýfætt barn fæðist ekki vont eða illa innrætt. Það er samfélagið sem getur gert börn vond. Nýfætt barn getur auðvitað haft ákveðna skapgerðareiginleika sem það fær í vöggugjöf en það er okkar, samfélagsins, foreldra, kennara og allra sem eiga samskipti við börn og unglinga, að hugsa þannig um þau að þau verði hamingjusöm, umhyggjusöm, skilningsrík og kunni að vera ákveðin án þess að sýna yfirgang og ofbeldi.

Börn og ungmenni geta tekið upp á ýmsu. Það þekkjum við öll. Auðvitað getur vandinn orðið það stór að sérstakrar aðstoðar sé þörf frá hendi uppeldisfræðinga, sálfræðinga og geðlækna. Það að ala upp barn er erfiðasta starf okkar í lífinu og það er ekki sama hvernig það er gert. Foreldrar geta haft áhrif á það hvernig börnum þeirra vegnar í lífinu og, já, það er þeirra hlutverk. Ef foreldrar þurfa aðstoð við uppeldið þurfa þeir að fá þá aðstoð og það er mikilvægt að ábyrgð á uppeldi sé ekki velt yfir á skólakerfið.

Í gær heyrði ég sögu um níu til tíu ára drengi sem höfðu greinilega fengið að valsa um í ofbeldistölvuleikjum og ljótur talsmáti þeirra var farinn að berast um bekki. Með leyfi forseta vil ég umorða þau hryllingsorð sem þeir létu falla og mín orð eru þessi: Fyrst velur þú þér portkonu til að sænga hjá. Síðan velur þú um nokkrar leiðir til að taka hana af lífi.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hver orðin voru í raun.

Herra forseti. Hvað getum við gert? Árið 2014 stofnaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, ráðherranefnd um lýðheilsu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti ráðherranefndina merkilegt framtak þar sem í henni komu saman fjórir ráðherrar, forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra. Jafnframt var sett á fót ráðgefandi nefnd og fjölbreyttur hópur sérfræðinga vann lýðheilsustefnu sem velferðarráðuneytið sendi frá sér árið 2016. Ein af aðgerðum þessarar stefnu kallast „uppeldi og færni til framtíðar, námskeið fyrir foreldra“. Markmiðið er að við alla ung- og smábarnavernd hringinn í kringum landið gefist foreldrum tækifæri til þess að sækja námskeið til að efla jákvæða leiðandi uppeldishætti. Verkefnið er kostnaðarmetið heilar 2 millj. kr. Er þetta enn ein stefnan sem ekkert verður farið eftir? Ég spyr.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hver er framtíðarsýn ráðherra um bætt uppeldi hér á landi? Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að uppfyllt verði þessi aðgerð lýðheilsustefnunnar, auðvitað ásamt öllum hinum, námskeið fyrir foreldra, úti um allt land?