150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu um bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu. Til að bæta uppeldisskilyrði og lýðheilsu þarf samtakamátt allra, stjórnvalda, sveitarfélaga, fagfólks og auðvitað fjölskyldna. Mig langar að tala um það sem snýr að okkur á hinu pólitíska sviði. Við getum með góðum vilja stigið risastórt skref í átt að bættum uppeldisaðstæðum og bættri lýðheilsu. Við getum gert það með jöfnuði. Félagslegur og efnahagslegur ójöfnuður er samkvæmt rannsóknum einhver mesta lýðheilsuógn sem til er. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt á það ríka áherslu að hvert samfélag skoði félagslega áhrifaþætti heilbrigðis, sérstaklega þá þætti sem lúta að ójöfnuði. Ójöfnuður innan samfélags hefur mikil áhrif á heilsu barna og fullorðinna og hafa fræðimenn sýnt fram á skýrt orsakasamhengi milli heilsufars og ójafnaðar. Þannig geta veikindi leitt til bágra félagslegra og efnahagslegra aðstæðna en einnig geta bágar félagslegar og efnahagslegar aðstæður haft veruleg neikvæð áhrif á heilsu fólks. Á sama tíma og stjórnvöld tala iðulega um það hversu mikill tekjujöfnuður er hér á landi er ekki í boði að horfa fram hjá þeim stóra hópi sem hreinlega nær ekki endum saman í hverjum einasta mánuði. Það að alast upp og búa við slíkar aðstæður með stöðugar áhyggjur af því hvar heimilið verður í næsta mánuði, hvort eitthvað verði til að borða o.s.frv. er ógn við heilbrigði og þar geta og eiga stjórnvöld á hverjum tíma að stíga inn með myndugleika.

Horfum ekki á meðaltöl, horfum á þá sem minnst hafa og leggjum áherslu á að koma þeim til aðstoðar því að það er okkar mikilvægasta verkefni.