150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

bætt uppeldi, leið til forvarna og lýðheilsu.

[11:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Nýjar áskoranir blasa við í uppeldi barna á 21. öld, m.a. vegna tæknibreytinga og þar af leiðandi samfélagsbreytinga. Þetta skiptir máli og einmitt líka þegar við förum að ræða þetta um lýðheilsuna í samfélaginu. Við á Alþingi erum, með því bæði að vera málstofa um samfélagið og eins með þeim lögum sem við getum sett, í aðstöðu til að skapa samfélag sem styður við foreldra í uppeldishlutverki sínu. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur farið yfir ýmis atriði sem snúa sérstaklega að því sem viðkemur ráðuneyti hennar og lýðheilsustefnunni.

Mig langar að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað um mikilvægi jöfnuðar þegar kemur að þessum málum því að það skiptir máli að börn hafi jöfn tækifæri. Það tengist líka inn í lýðheilsuna að börn hafi jöfn tækifæri til að stunda uppbyggjandi tómstundir, hvort sem er tónlistarnám eða íþróttir.

Svo eru nokkur atriði sem mér finnast skipta máli sem mig langar að bæta við að auki. Jafnvægi fjölskyldulífs og atvinnu, þar með stytting vinnuvikunnar, skiptir máli. Leikskólar eru frábærir, m.a. fyrir félagsþroska barna, en það þarf líka að vera tími til að vera heima með foreldrunum. Mig langar að lokum að nefna fæðingarorlof og lengingu þess. (Forseti hringir.) Það held ég að muni skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að uppeldi barna og vellíðan þeirra og foreldra.