150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þegar Ísland var kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna sagði utanríkisráðherra:

„Þessari stöðu fylgir mikil ábyrgð og það er mikilvægt að við Íslendingar stöndum saman um að axla hana.“

Mér sýnist satt að segja að íslensk utanríkisþjónusta hafi gert það ágætlega, sýnt og axlað ábyrgð í þessu mikilvæga hlutverki sem vinaþjóðir treysta okkur til. Vera okkar í mannréttindaráðinu sýnir glöggt að Ísland getur leikið mikilvægt hlutverk og haft jákvæð áhrif á þróun mála á alþjóðavettvangi. Við höfum horft upp á viðamiklar breytingar á stöðu heimsmála síðustu áratugi, nýja drifkrafta og valdastrúktúra. Í stað hefðbundinnar skiptingar kalda stríðsins milli austurs og vesturs er staðan miklu flóknari en áður og kraftarnir allt aðrir. Við horfum upp á vaxandi fylgi við öfgastefnur til vinstri og hægri um allan heim. Hér heima og í Evrópu hefur líka borið aðeins á aukinni öfga- og einangrunarhyggju sem er gríðarlegt áhyggjuefni.

Ég vil nýta tækifærið í þessari umræðu til að undirstrika hve alþjóðlegt samstarf, náin alþjóðasamvinna með þeim þjóðum sem deila með okkur gildum og heimssýn, er ótrúlega mikilvægt en einnig að eiga hreinskiptið samtal við önnur ríki sem gera það ekki og í mannréttindaráðinu eru auðvitað alls konar þjóðir. Við sjáum það vel í þessari ágætu skýrslu að mikið hefur áunnist í ráðinu. Við vorum leiðandi í gagnrýni á bága stöðu kvenna í Sádi-Arabíu, sýndum frumkvæði í gagnrýni á stöðu mannréttinda á Filippseyjum, settum mark okkar á ályktun mannréttindaráðsins um jöfn laun til handa körlum og konum og komum að fjöldamörgum öðrum góðum málum og tilhögun er varðaði hamfarahlýnun og mannréttindi hinsegin fólks, svo að eitthvað sé nefnt.

En það má alltaf gera betur, herra forseti. Það voru auðvitað vonbrigði þegar Ísland sat hjá við afgreiðslu ályktunar um að fylgja skuli alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum á hernumdum svæðunum í Palestínu og rétta yfir þeim sem brjóta þau. Það skýtur skökku við þar sem Alþingi og íslenska þjóðin lýsti yfir stuðningi við Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki miðað við landamærin eins og þau voru 1967. En nóg um það.

Það er einkum tvennt sem ég vil nota tækifærið til að ræða hér í dag í tengslum við setu okkar í mannréttindaráðinu. Annars vegar er það stefnumótun í utanríkismálum, ekki síst á sviði mannréttinda. Hins vegar eru það alþjóðasamþykktir sem við höfum gengist undir á sviði mannréttinda hvað varðar flóttafólk. Í skýrslu þessari er vísað í að Ísland hafi á sviði mannréttindamála á alþjóðavettvangi byggt áherslur sínar á grunni stefnuskjals frá 2007 — takið eftir — sem ber heitið Mannréttindi í íslenskri utanríkisstefnu. Þegar ég las yfir þetta plagg áttaði ég mig á því að það er að mörgu leyti mjög gott. En það vekur hins vegar athygli mína að við virðumst ekki hafa uppfært þessa stefnu okkar í mannréttindamálum í nær 13 ár, og margt hefur breyst síðan þá. Það vekur mig til umhugsunar um hvort íslensk utanríkisstefna sé of óskýr, enda kannski of lítil stefnumótun sem á sér stað, a.m.k. ekki mótuð og rædd á hinu pólitíska sviði á fullnægjandi hátt, það finnst mér a.m.k. stundum. Miðað við þá breyttu heimsmynd sem ég nefndi áðan og þær alþjóðlegu ógnanir sem við stöndum frammi fyrir, og tækifærin sem líka blasa við, finnst mér ljóst að við verðum að ráðast í skýrari og sterkari stefnumörkun á sviði utanríkismála hér á Alþingi.

Ráðherra hefur fyrir sitt leyti skilað ágætum skýrslum og þær hafa verið ræddar stuttlega í utanríkismálanefnd og hér í þingsal. En mér þykir samt vöntun á skipulegri stefnumótun og markmiðasetningu. Til að mynda ætti einn veigamesti þátturinn í íslenskri utanríkisstefnu að snúa að baráttunni gegn hamfarahlýnun. Ísland getur tekið forystu í því samhengi og haft mjög mikil áhrif á alþjóðavettvangi þrátt fyrir smæðina. Það sýna þessi dæmi okkur. Það sýnir seta okkar í mannréttindaráðinu, það er hlustað á okkur. Öll mál hér á þingi og allir málaflokkar þurfa reyndar að taka meira mið af þessari aðsteðjandi ógn, en það er önnur saga. Í Danmörku t.d. hefur verið mótuð sérstök græn utanríkisstefna. Í Svíþjóð fylgja þeir femínískri utanríkisstefnu og þótt Ísland láti sig vissulega bæði loftslagsmál og jafnrétti kynjanna mikið varða á alþjóðasviðinu er hægt að gera það með formfastari og skipulagðari og áhrifaríkari hætti, finnst mér. Samfylkingin, eins og vonandi flestir aðrir flokkar hér inni, og kannski allir, er örugglega tilbúin til að koma í þá vinnu með ráðherra.

Fyrst við erum hér að ræða um mannréttindi á alþjóðavettvangi er mjög mikilvægt að minnast á og koma inn á réttindi og meðferð fólks á flótta. Fólk á flótta verður að njóta mannréttinda á sama hátt og annað fólk. Þótt ég viti að útlendingalögin og framkvæmd þeirra séu ekki beint á könnu hæstv. ráðherra ber ríkisstjórnin öll ábyrgð á þeim málaflokki. Nú horfum við fram á það að í fyrsta skipti stendur til að Ísland sendi börn til Grikklands þrátt fyrir fregnir af hræðilegu ástandi við Miðjarðarhafið. Endursending fólks til Grikklands við þessar aðstæður er ekki til þess fallin að þau börn fái þau mannréttindi sem við gerum kröfu á að fólk sem hér er fái. Við getum ekki tekið umræðu hér á Alþingi og klappað okkur á bakið fyrir góð störf, sem vissulega hafa fylgt setu okkar í mannréttindaráðinu, án þess að nefna þetta og víkja að þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað hér heima.

Herra forseti. Að lokum minni ég á að við þingslit 2017 undirrituðu formenn allra flokka, nema reyndar Sjálfstæðisflokksins, yfirlýsingu þess efnis að á næsta þingi, á þessu þingi, yrði lögð sérstök áhersla á að breyta útlendingalögunum þar sem réttindi barna á flótta og fólks í viðkvæmri stöðu yrðu sérstaklega höfð að leiðarljósi. Það er þess vegna hálfnöturlegt að standa hér og það hefur ekkert gerst í málaflokknum. Jú, nema reyndar það að fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur lagt fram breytingar sem ekki hafa fengið meðferð í þinginu, sem betur fer, sem ganga þvert á þetta, sem þrengja að réttindum þessa hóps, og sett fram reglugerðir sem gera það sama. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að halda áfram að tala fyrir mannréttindum og minna á þau hvar sem hann kemur og hvert sem hann fer og þora, hann segir sjálfur í skýrslunni að það sé mikilvægt að þora, að tala hreint út þrátt fyrir að við séum lítil. Hann hefur gert margt gott. Þessi skýrsla er góð og vel unnin og við getum á margan hátt verið stolt af setu okkar í mannréttindaráðinu. Við eigum að nýta okkur tækifærin þegar og ef þau gefast til að setjast í það aftur og við getum tekið önnur verkefni að okkur þrátt fyrir að við séum lítil. En við megum aldrei falla í þá gryfju að vera svo ánægð með það sem við erum að gera að við getum ekki tekið umræðu um það sem miður fer.