150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

störf Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:46]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að útflutningsvara er miklu fleira en bara fiskur og ál, m.a. hugmyndir og reynsla okkar af því sem við höfum gert vel. Við erum t.d. með skóla Sameinuðu þjóðanna þar sem við miðlum af því sem gengið hefur vel hjá okkur; það er jarðhitinn, sjávarútvegurinn, landgræðslan, sem margir vita ekki að við höfum náð góðum árangri í, t.d. vissi ég það ekki fyrr en ég fór að kynna mér það, svo að það sé bara sagt, og svo jafnréttismálin. Það er gott að ég hef ekki heyrt neinn hv. þingmann hér á þingi vilja fara til baka í þeim málum, bara svo að dæmi sé tekið en síðan snýst þetta um að stíga næstu skref.

Bara af því að ég gleymdi því áðan, af því að hv. þingmaður vísaði til atkvæðagreiðslu um Palestínu, hvet ég hv. þingmann til að kynna sér atkvæðaskýringu okkar þar. Við vorum ekkert að draga undan þegar kom að framgöngu Ísraels en þessi ályktun þarf líka að taka mið af Hamas. Ég held að allir séu sammála um það sem skoða það.

Mér finnst hv. þingmaður koma hingað inn og ræða þetta mál yfirvegað og málefnalega. Þegar kemur að stefnumótun og framsetningu er það eitthvað sem við eigum alltaf að skoða. Hins vegar eru þau mál sem hv. þingmaður vísaði til okkar áherslumál. Ég held að allir hafi tekið eftir því á alþjóðavettvangi hvernig við höfum tekið þau mál upp. En auðvitað er það í þessu eins og öllu öðru að alltaf má gera betur. Allar hugmyndir þar um eru vel þegnar.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að ræða alþjóðamál meira á þessum vettvangi. Þess vegna m.a. er þessi skýrsla komin fram og þess vegna mun ég koma með fleiri skýrslur inn í þingið ef þingið veitir mér leyfi til þess, ekki bara skýrslu utanríkisráðherra. Þess vegna höfum við gefið út skýrslu sem er ekki bara aðgengileg þinginu heldur sömuleiðis þjóðinni, og við munum halda því áfram.