150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum vegna veirufaraldurs, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir opnunarinnlegg sitt í þessari umræðu. Staðan er snúin en nú skiptir mestu máli að viðbrögðin séu ákveðin, markviss og til þess fallin að skila okkur í rétta átt. Í augnablikinu held ég að óhætt sé að segja að hættumeira sé að undirskjóta en yfirskjóta hvað aðgerðir varðar. Það er mikið áhyggjuefni þegar öflugir ferðaþjónustuaðilar upplifa það sem svo að ástandið sé hættumeira núna en 11. september og eftirmálar þess atburðar á sínum tíma. Ég legg áherslu á að við erum á stað sem er býsna uggvænlegur hvað þennan hluta efnahagslífsins varðar sem er jafn stór og raunin er hér heima þar sem ferðaþjónustan á í hlut.

Það er talað um að staðan sé fordæmalaus og hún er mjög snúin, en við verðum líka að minna okkur á að við höfum oft séð það svart áður. Lykilatriðið til að ná okkur út úr snúinni stöðu hefur alltaf verið það að nálgast málið með opnum augum, leita lausna og keyra þær í gegn. Ekki vinnst mikið í núverandi stöðu á því að fresta málum. Mér finnst sem betur fer ríkisstjórnin hafa a.m.k. að hluta til bætt í í dag hvað fyrirsjáanleg viðbrögð varðar því að ég lýsti því yfir seinast í gær að mér þætti hafa farið mjög hægt af stað hvað viðbrögð hins opinbera varðar.

Við horfum fram á þríþætta þörf fyrir aðgerðir. Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem snúa að óveðrinu sem varð í desember. Þar steig ríkisstjórnin fram 28. febrúar sl. með viðbrögð sín. Síðan eru það viðbrögðin núna vegna kórónuveirunnar og þeirra miklu áhrifa sem hún hefur á ferðaþjónustuna. Loks er atriði sem við megum ekki gleyma og mér þykir hafa fallið milli skips og bryggju undanfarna daga og vikur í umræðunni, hin almenna kólnun hagkerfisins sem hefur blasað við frá seinni parti síðasta árs. Í þeim efnum verður ekki beðið miklu lengur með að taka meðvitaðar ákvarðanir um innspýtingu sem þarf að eiga sér stað, bæði hvað varðar innviðauppbyggingu og það að stíga til baka hvað hina miklu sókn hins opinbera varðar í skatta og gjöld af atvinnulífinu. Ég ætla ekki að tala um að veita súrefni inn í atvinnulífið heldur verður ríkið núna að taka minna af því sem atvinnulífið skapar en verið hefur undanfarið.

Hvað varðar fyrstu tvo þættina sem ég nefndi, óveðrið í desember og kórónuveiruna, má segja að ríkisstjórnin sé búin að sýna á fyrstu spilin en hefur jafnframt flaggað því að töluvert sé eftir sem passar við þann tón sem hefur borist frá atvinnulífinu síðustu daga, að það hefði verið gott merki að ríkisstjórnin ætlaði að stíga inn. Það þótti þó mjög óútfært sem þar var sagt frá.

Það sem ég nefndi áðan er í rauninni tvíþætt núna sem við stöndum fyrir af bráðaaðgerðum. Annars vegar eru þau atriði sem snúa að minni skattheimtu og því að skilja meira af súrefninu eftir í atvinnulífinu. Þar höfum við í Miðflokknum lagt til að gistanáttagjaldið verði varanlega lagt af og ríkisstjórnin hefur nú stigið inn og tilkynnt að það verði gert, a.m.k. tímabundið til að byrja með.

Ég tel skynsamlegt að við skoðum það að færa ferðaþjónustuna aftur niður í lægra virðisaukaskattsþrepið þar sem hún var áður.

Við í Miðflokknum höfum lagt það til að viðbótarlækkun á tryggingagjaldinu sem nemur heilu prósentustigi verði keyrð í gegnum kerfið núna strax. Prósentustig í tryggingagjaldinu liggur á milli 15 og 20 milljarða þannig að sú aðgerð ein mun skilja eftir, ef við miðum við frá og með nokkurn veginn núna og til ársloka, sennilega 10–12 milljarða í atvinnulífinu sem ekki er vanþörf á núna.

Við viljum jafnframt nefna að það verður að útfæra leið að því að fyrirtæki geti haldið fólki í vinnu í meira mæli en nú stefnir í. Stór og öflug fyrirtæki sjá fram á miklar uppsagnir á næstu dögum og vikum. Fyrir kerfið í heild, svo ég leyfi mér að nota það vonda hugtak, er miklu mikilvægara að fólk haldist við störf þannig að fyrirtækin séu tilbúin að komast á almennilega ferð eftir að birtir til en að fólk lendi af fullum þunga á atvinnuleysisskrá og þurfi einhvern veginn að byrja á hálfgerðum núllpunkti að vinna sig inn í kerfið aftur. Ég held að töluverðu sé til fórnandi að fjárfesta í því að halda uppi atvinnustigi á næstu vikum og mánuðum.

Atriði sem koma til eru frestanir gjalddaga enda eru staðgreiðslur strax á mánudaginn, svo dæmi sé tekið. Fleiri slíkir þættir myndu sýna að stjórnvöld væru komin á tærnar og ætluðu að taka á ástandinu. Við verðum líka að nálgast það þannig að það sé tímabundið. Við verðum að horfa á það þannig að aðgerðir sem við grípum til núna séu til þess ætlaðar að atvinnulífið í heild sinni og ferðaþjónustan sérstaklega verði tekju- og atvinnuskapandi þegar birtir til. Það er gríðarlega verðmætt.

Hinn bráðaþátturinn sem ég vil nefna líka er innspýting í innviðauppbyggingu, fjárfestingar hins opinbera. Við í Miðflokknum höfum lagt til að farið verði í 150 milljarða skuldsettan framkvæmdapakka á næstu þremur árum sem er raunveruleg innspýting sem mun skipta máli. Það þarf að senda þessi merki fljótt. Það þýðir ekki að mínu mati að senda þessi merki í sumarbyrjun eða jafnvel síðar, það þarf að komast af stað með verk í útboðum og þar fram eftir götunum hið fyrsta þannig að menn geti nýtt sumarið vel og upplifað það að aðgerðirnar skili inn súrefni, bæði hvað varðar það að ríkið stígi til baka með skattheimtu og hins vegar með þessari beinu innspýtingu í framkvæmdir.

Eins og ég segi þurfum við að tryggja að atvinnulífið og þá ferðaþjónustan sérstaklega verði í eins þokkalegri stöðu og mögulegt er þegar þessi veiruáhrif víkja. Við megum þó á sama tíma ekki gleyma öðrum þáttum efnahagslífsins. Við höfum orðið fyrir til að mynda loðnubresti tvö ár í röð sem hefur veruleg áhrif á þeim svæðum þar sem slík vinnsla er stunduð og veiðar. Við horfum upp á kólnun atvinnulífsins í heild sinni, ekki bara út af kórónuveirunni eða aðgerðum Bandaríkjaforseta í nótt. Við því verðum við að bregðast og í allri umræðunni um stuðning vegna launagreiðslna til fólks í sóttkví vegna kórónuveirunnar hefur lítið verið fjallað um hagsmuni og þarfir einyrkja og smærri fyrirtækja almennt. Ég vil bara halda því til haga hérna að við pössum upp á þessa hópa sem eru kjarnahópar þegar allt er talið saman í íslensku atvinnulífi. Þessa hópa þurfum við að passa sérstaklega þó að auðvitað sé mikilvægt að líta til með kerfislega mikilvægum fyrirtækjum. Enginn efast um að aðgengi þeirra að ríkisstjórn og stjórnsýslu er miklu bærilegra en einyrkjanna, þeirra sem missa tekjustreymið niður hér um bil innan dagsins þegar ástand eins og þetta skapast.