150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

launahækkun þingmanna og ráðherra.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara að það væri alveg á hreinu þar sem þessari fyrirspurn er beint til mín að ég er ekki að taka neina ákvörðun, hef ekkert lagt til við þingið annað en að fresta næstu launahækkun. Það var þingið sjálft sem ákvað þá hækkun sem tók gildi um áramót þó að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hún hafi ekki enn verið greidd út en það er ekki samkvæmt minni ákvörðun.

Það er sanngjörn spurning sem er borin hér upp. Hvað finnst mér um það að æðstu embættismenn ríkisins tækju á sig launaskerðingar núna við þessar aðstæður til að sýna gott fordæmi og fylgja öðrum í samfélaginu? Mér finnst það vel koma til greina, en það nýjasta sem við höfum reyndar gert í þeim efnum er að semja núna síðast við hjúkrunarfræðinga um launahækkanir, þar áður við sjúkraliða og þar áður við BHM og önnur opinber stéttarfélög. Á almenna markaðnum hefur þessi spurning verið borin upp og af hálfu stéttarfélaganna var því hafnað. Engin slík hreyfing er í gangi nema hvað snertir þá sem eru að tapa starfi sínu. Það er mjög alvarlegt mál og þau mál erum við að ræða hérna í fjölmörgum þingmálum í þingsal.

Mér finnst hins vegar vel koma til greina, (Forseti hringir.) ef tekst eitthvert alvörusamtal um það að fara í launafrystingar eða lækkanir, að þá ættu hinir opinberu embættismenn, þeir sem eru í æðstu stjórn ríkisins, að leiða þá breytingu, þá þróun.