150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

vextir og verðtrygging.

[15:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma 23. mars sl. var ég að ræða verðtrygginguna og áhyggjur af þróun hennar við hæstv. fjármálaráðherra. Þá sagði hann orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég vek athygli á því að eftir yfirlýsingu Seðlabankans frá því í morgun hafa vextir á verðtryggðum lánum fallið niður í 0%, ekki bara til skamms tíma heldur allt fram til ársins 2026.“

Virðulegur forseti. Ég spyr: Fór hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til spákonu eða spámiðils til að fá þessar upplýsingar um 0% vexti næstu sex árin? Er þetta satt og rétt? Þá er þetta mesta kraftaverk sem komið hefur inn á vaxtamarkaðinn á Íslandi og stórkostlegt ef svo er. En nei, spá um 0% draumavexti hæstv. ráðherra hef ég hvergi fundið, ekki hjá bönkunum, ekki hjá lífeyrissjóðum né nokkurs staðar annars staðar í fjármálakerfinu.

Það má segja að nær öll lán heimilanna á Íslandi séu verðtryggð. Óverðtryggð lán taka mið af verðbólgu. Þá ber þess að geta að nær allir leigusamningar á Íslandi eru verðtryggðir. Því mun þak á verðtrygginguna hafa gríðarleg áhrif á leigu og skipta gríðarlegu máli fyrir alla þá sem eru á leigumarkaði. Ef ekkert er að óttast um verðbólguskot, er þá ekki í lagi að taka verðtrygginguna úr sambandi strax til að róa fólk og eyða ótta þess um að verðbólga fari af stað með eignaupptöku eins og 15.000 fjölskyldur urðu fyrir í bankahruninu? Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Er þetta bara draumur í dós, 0% vextir í sex ár af verðtryggðum lánum heimilanna, og ef svo er ekki, hvernig verður það þá framkvæmt?