150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

biðlistar í valkvæðar aðgerðir.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Er búið að fella á brott hluta af lögum um réttindi sjúklinga vegna Covid-19? Það er verið að koma í veg fyrir að fólk deyi af völdum Covid-19 veirunnar, en hvað ef það deyr svo vegna aðgerðaleysis? Það er dauðans alvara að grotna niður á biðlistum eftir að komast í hjarta- eða æðaaðgerð eða liðskiptaaðgerð. Þar er í gildi 90 daga Evrópuregla um aðgerðir erlendis, en það er ekki hægt eins og staðan er núna. Spurningin er hvað hægt er að gera og hvað heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin eru að gera í biðlistamálum. Hvað hefur fjölgað mikið á biðlistum eftir skurðaðgerðum? Hversu alvarleg er staðan hjá þeim sem bíða í þessum biðsal dauðans, sem borða óhugnanlega mikið af lyfjum, ekki síst rótsterkum ávanabindandi verkjalyfjum? Hvað um aðgerðir hér innan lands? Það á að nýta allar aðgerðastofur sem lausar eru til að stytta biðlistana og koma þar með þessum hópi svo fljótt sem auðið er úr þessu ómannúðlega biðlistakerfi.

Núna 4. maí verður aftur mögulegt að gera valkvæðar aðgerðir. Hvert er planið? Hvernig á að vinna á biðlistunum? Og lykilspurningin er: Hvað á þetta taka langan tíma? Því það er á hreinu að tíminn líður alltaf hægt og kvalafullt hjá þeim sem eru á þessum biðlistum og þurfa að bíða og bíða. Ég segi af eigin reynslu að það er ömurlegt. Ég óttast um þá sem þarna eru og ég tel að nú sé kominn tími til að taka á því og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að við útrýmum þessu biðlistakerfi þannig að tími á biðlista verði aldrei lengri en þrír mánuðir.