150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanni kærlega fyrir þetta innlegg í umræðuna. Varðandi kostnaðinn við eftirlitið er þetta fyrst og fremst kostnaður í upphafi sem hefur verið metinn á 6–7 milljónir sem skiptist á þrjú ár, eitthvað slíkt, þannig að það er vel yfirstíganlegt.

Síðan varðandi innleiðinguna þá er þetta hrein innleiðing. En ég verð þó að nefna að við innleiðum ekki alla tilskipunina með þessu frumvarpi. Það sem er ekki inni í frumvarpinu en er í tilskipuninni er það sem snýr að framleiðendaábyrgðinni sem ég var að tala um áðan og snýst um ábyrgð framleiðandans á því hvers konar umbúðir hann kýs að nota. Eins og þið þekkið kannski með Úrvinnslusjóð þá hefur verið farin sú leið með ýmsar vörur að setja gjald á þær sem síðan skilar sér þegar verið er að ná til umbúðanna og meðhöndla það í lokin. Við þekkjum það kerfi. Sá hluti tilskipunarinnar er ekki innleiddur hér og ástæðan er einfaldlega sú að við töldum okkur þurfa aðeins meiri tíma til að taka það atriði. Þá væri hægt að spyrja: Af hverju í ósköpunum eruð þið þá að koma með þetta strax? Svarið við því er að þetta mun taka gildi í júlí á næsta ári og við teljum mikilvægt að almenningur og atvinnulíf hafi tíma til að aðlaga sig þessum breytingum.