150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[20:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um Keldnalandið sérstaklega: Ef við skoðum framlag samningsaðilanna til þessa samkomulags erum við annars vegar með af ríkisins hálfu Keldnalandið og hins vegar sérstök framlög sem verða tryggð á fjárlögum samkvæmt þeirri hugsun sem býr að baki samningnum, fyrir utan þessa viðbótarfjármögnun sem ég rakti aðeins í framsögu minni. Af hálfu sveitarfélaganna er í sjálfu sér ekki mikið framlag. Það birtist fyrst og fremst í 1 milljarði á ári í 15 ár vegna allra samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu en 1 milljarður á ári er jafnvel aðeins minna en sveitarfélögin hafa verið að leggja til þessa málaflokks á ári að undanförnu. Það er því ekki mikil ný skuldbinding af þeirra hálfu og þetta er nánast efnislega einhliða yfirlýsing ríkisstjórnarinnar. En það eru þó undantekningar á þessu og ein þeirra er um þróunarfélagið. Ég verð að segja að það skiptir ríkið gríðarlega miklu máli að samkomulag sé um að reyna að hámarka virði landsins sem lagt er inn í samninginn. Það má lesa út úr þessari tilteknu grein, af því að sveitarfélögin hafa aðkomu að félaginu, að með góðu samstarfi við höfuðborgina standa væntingar til þess að hægt verði að losa um mikil verðmæti í þessu tiltekna landi sem munu gagnast í þágu þessara samningsmarkmiða. En varðandi það sérstaklega að stofna þróunarfélag þá tel ég að þetta sé vannýtt leið til að virkja efnahagsreikning ríkisins til góðra mála. Þetta eru oft og tíðum eignir sem liggja inni á efnahagsreikningi ríkisins án þess að það komi beint að góðum notum. En með þessari aðferðafræði getum við komið á fót, eins og hér á við, þróunarfélögum sem geta farið í framkvæmdir sem teljast ekki til gjalda í samhengi opinberra fjármála.