150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[23:08]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Líkt og hæstv. ráðherra rakti í ræðu sinni er hér um að ræða mál sem segja má að taki á ansi fjölbreyttum hlutum þegar kemur að útlendingamálum og í því er ýmislegt sem mér líst nokkuð vel á, til að mynda það sem snýr að fjölskyldusameiningu kvótaflóttamanna, en það ákvæði tekur hins vegar til fleiri atriða og það er eitt af því sem ég held að hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem fær málið til sín þurfi að kafa mjög ofan í. Þá held ég að ákvæði sem snúa að endurnýjun á dvalarleyfum séu jákvæð og svo held ég einnig að það hlutverk sem Barnaverndarstofu er ætlað við veitingu alþjóðlegrar verndar í málefnum fylgdarlausra barna sé gott þannig að í frumvarpinu er ýmislegt sem ég held að sé til bóta í útlendingakerfi okkar. Svo er hér, líkt og hæstv. ráðherra kom inn á, ýmislegt sem lýtur að alþjóðlegum skuldbindingum okkar. Þar skiptir máli að kafað sé ofan í það að við stöndum við þær skuldbindingar en það skiptir auðvitað máli hvernig þær eru framkvæmdar. Þar held ég að sé líka verkefni fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Það er hins vegar ýmislegt í frumvarpinu sem við í þingflokki Vinstri grænna höfum athugasemdir við og líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá gerðum við fyrirvara við ákveðin atriði í frumvarpinu, sér í lagi það hvernig er tekið á málefnum fólks sem hefur hlotið alþjóðlega vernd. Við erum mótfallin því að innleitt verði kerfi sem leiðir til aukinnar sjálfvirknivæðingar í þeim efnum og þeim athugasemdum okkar komum við á framfæri við hæstv. ráðherra þegar við fjölluðum um málið í þingflokki okkar. Það er auðvitað þannig að staðan í flóttamannamálum í mörgum löndum er hræðileg og þó svo að lönd hafi veitt fólki vernd þá er ekki alltaf neitt mikið sem fylgir því annað en að fólk verður ekki sent til baka til stríðshrjáðra landa. Það hafa verið gerðar athugasemdir við þetta. Þetta er eitt af því sem við í þingflokki VG leggjum áherslu á að breyta.

Svo tel ég einnig mjög brýnt og vil leggja áherslu á það að áður en umfjöllun málsins í nefnd lýkur verði leitt til lykta það samstarf sem hófst fyrir nokkrum vikum, fyrir Covid, milli þriggja ráðherra, þ.e. forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra, varðandi málefni barna í hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við höfum séð þannig mál sem hafa ratað í fjölmiðla og það var settur af stað hópur til að kafa ofan í þau og þarf að skoða þá umfjöllun í samhengi við þetta frumvarp því að staða þessara barna talar auðvitað beint inn í það.

Herra forseti. Þetta frumvarp tekur á mörgum hlutum sem snúa að málefnum útlendinga og það er verið að gera breytingar á nokkrum lagabálkum, sumar til hins betra, aðrar síður. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að allsherjar- og menntamálanefnd kafi mjög ofan í frumvarpið og kalli til sín aðila eins og Rauða krossinn sem einmitt þjónustar og heldur utan um mikið af því fólki sem frumvarpið tekur til.