150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[17:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna og ekki síst fyrir gott samstarf í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég fór ekki í andsvör við fleiri sem mælt hafa fyrir ræðum sínum og langar því að nota tækifærið og þakka öllum hv. þingmönnum fyrir mjög gott samstarf og málefnalega og góða umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ekki síst hv. þm. Óla Birni Kárasyni sem leiddi nefndina. Mér hefur fundist vera málefnalegar og góðar umræður í nefndinni. Eins og hv. þingmaður fór vel yfir í ræðu eru töluverðar breytingar sem urðu til í nefndinni og við erum flest nokkuð sammála um. Hv. þingmaður gerir samt fyrirvara, sem ég ber fulla virðingu fyrir, og tilgreinir sérstaklega styrki til einkarekinna fjölmiðla. Það má eiginlega segja að þetta sé svolítið vandræðamál. Ég held að flestir geti verið sammála um það. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að flestir væru sammála um mikilvægi þess að styðja einkarekna fjölmiðla en einhvern veginn virðumst við ekki hafa komið okkur saman um góða leið til þess. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvað hann hefði lagt til því að hann fer hér hörðum orðum um þó þá tilraun sem við vorum að gera í efnahags- og viðskiptanefnd til að finna leiðir til að deila þessum fjármunum út undir slíkum aðstæðum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt frá hv. þingmanni hverjar hans tillögur væru að útdeilingu á því fé.