150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég ætla að bæta við: Að ég tali nú ekki um þegar hlutir eru unnir jafn hratt og raun ber vitni og fjárhæðirnar jafn háar. Þá reynir maður auðvitað að sýna því skilning að þá kemur maður ekki öllum að í svona víðtæku samráði og getur ekki velt vöngum mikið yfir því að fá mat úr öllum áttum. Það hægir á öllu svona ferli.

En ég get upplýst hv. þingmann um að við höfum fengið vilyrði hjá fjármálaráði um að koma á fund hv. fjárlaganefndar og hv. efnahags- og viðskiptanefndar, vegna þess að við teljum mikilvægt að fá alla vega þetta samtal þó að það sé býsna önugt í lögunum, það er ekki teiknað þar inn að ráðið eigi að gefa okkur eitthvert óháð, hlutlægt mat til að mynda á þessum pökkum.