150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[19:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil segja það í upphafi að þær aðgerðir sem mælt er fyrir um í þessu frumvarpi eru flestar af hinu góða og koma til með að hjálpa fyrirtækjunum og létta undir með þeim hvað reksturinn varðar og vonandi örva atvinnulífið þegar fram í sækir. En ég vil koma fyrst inn á frestun skattgreiðslna lögaðila. Ég tek heils hugar undir að þakið sem þarna er rætt um, og heimilt er að fresta, er of lágt, um 20 milljónir. Hins vegar er um frestun að ræða þannig að spurningin er: Verða fyrirtækin betur í stakk búin að greiða þegar kemur síðan að gjalddaga? Sú hætta er vissulega fyrir hendi að fyrirtækin verði jafnvel enn þá tekjulaus þegar kemur að því að þau þurfa að greiða. Þá erum við komin í vanda með hvað á að gera. Á að beita lögbundnum úrræðum til að innheimta gjöldin eða fara aðrar leiðir til að reyna að hjálpa þessum fyrirtækjum? Ég held að stjórnvöld verði að hafa það í huga að hugsanlega þurfi jafnvel að koma til niðurfelling gjalda í einhverjum mæli. Það gæti gerst. Við vitum ekki hvernig þróunin verður, hvort fyrirtækin verði yfir höfuð í stakk búin að greiða þegar kemur að gjalddaga og það safnast upp fjárhæðir sem þarf að greiða. Þetta er eitthvað sem þarf að hafa í huga í þessu máli.

Ég vil næst víkja aðeins að ferðaþjónustunni. Það hefur komið fram af hálfu framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar að fjöldagjaldþrot myndu hamla verulega uppbyggingu í greininni á ný. Við verðum líka að horfa til framtíðar, hvernig við náum okkur á strik þegar ferðamenn fara vonandi að streyma hingað aftur. Við verðum að vera viðbúin þessu og hafa einhvers konar áætlun um þetta og þess vegna er nauðsynlegt að leita allra úrræða til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot í ferðaþjónustunni. Þetta er jú atvinnugreinin sem var fyrir veirufaraldurinn sú stærsta í landinu og skilaði okkur mestu til þjóðarbúsins, t.d. hvað gjaldeyrisöflun varðar.

Ég hef áður minnst á það hér í ræðustól að nauðsynlegt er að einfalda þau lögbundnu úrræði sem við höfum þegar til staðar til að aðstoða fyrirtæki í gegnum þetta. Þar vil ég nefna sérstaklega greiðslustöðvun. Við þurfum ekki að standa í lagasmíð þegar við höfum í raun úrræði til staðar sem þarf kannski bara aðeins að slípa til og laga þannig að þau gagnist í þessum aðstæðum. Þess vegna er mjög mikilvægt við þær aðstæður sem ferðaþjónustan glímir núna að hún falli undir skilyrði greiðslustöðvunar. Mörg ferðaþjónustufyrirtæki sem voru fjárhagslega heilbrigð, ef svo má segja, fyrir útbreiðslu veirunnar hafa nú mátt þola mikið tekjufall, algjört tekjufall, og hafa þörf fyrir greiðslustöðvun til þess að geta komist tímabundið í skjól. Það er því brýnt að löggjafinn breyti án tafar lögum um gjaldþrotaskipti, auðveldi fyrirtækjum að glíma við rekstrarvanda og fá heimild til greiðslustöðvunar. Munurinn á því að halda fyrirtækjum á lífi til að þau geti náð viðspyrnu þegar ferðamenn koma aftur og því að keyra þau í gjaldþrot er einfaldlega munurinn á því hvort takist að endurreisa efnahag okkar með aðstoð ferðaþjónustunnar á eins stuttum tíma og hægt er. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Óli Björn Kárason, hefur sagt að það sé skynsamleg ráðstöfun við þessar aðstæður að auðvelda fyrirtækjum að fara í fjárhagslega endurskipulagningu í skjóli greiðslustöðvunar og ég tek heils hugar undir það, ég hef talað fyrir þessu áður. En orðum hv. þingmanns og formanns nefndarinnar verða að fylgja athafnir. Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra sérstaklega hvort ekki væri eðlilegt að breyta skilyrðunum fyrir greiðslustöðvun, þau eru tiltölulega þröng, þannig að þetta úrræði gæti nýst við þær aðstæður sem veirufaraldurinn hefur valdið atvinnufyrirtækjum. Hæstv. ráðherra svaraði því til að málið yrði skoðað og ég hef ekki fengið neinar fregnir af því síðan. Það er orðið nokkuð síðan ég spurði hæstv. ráðherra út í þetta í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, að mörg fyrirtæki geta ekki beðið endalaust eftir því að ráðherra skoði málið. Það þarf að bregðast við strax áður en það verður um seinan. Gallinn við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir er að margar þeirra eru ekki komnar til framkvæmda. Ég nefni brúarlánin sem dæmi og hlutabótaleiðin er ekki komin fyllilega fram með þeim hætti sem lagt var upp með. Þetta er mjög mikilvægt. Það er ekki nóg að samþykkja einhverjar aðgerðir ef framkvæmdin er öll í skötulíki. Þessu verður bara að taka á. Í raun er staðan þannig að fjölda fyrirtækja ber nú þegar skylda til þess að gefa bú sín upp til gjaldþrotaskipta. Það er nú bara þannig lögum samkvæmt. Þau eru enda ógreiðslufær og ljóst að greiðsluörðugleikar þeirra munu ekki batna á næstunni. Til að koma í veg fyrir að lífvænleg fyrirtæki verði tekin til gjaldþrotaskipta og tryggja að þau fái nægilegt skjól frá kröfuhöfum verður að einfalda skilyrði greiðslustöðvunar. Sú leið hefur verið farin í Noregi og hefur þegar verið viðurkennt að það þurfi skilvirkara úrræði til að hreinsa upp skuldavanda fyrirtækja.

Það er bara staðreynd, herra forseti, og ég veit að herra forseti þekkir það vel, að skilyrði greiðslustöðvunar eru of þung í vöfum og þau eru ekki nægilega aðgengileg fyrir fyrirtæki í bágri fjárhagsstöðu. Það verður að einfalda umsóknarferlið umtalsvert og höfnunarskilyrðum dómstóla verður að fækka og þrengja þau. Sem dæmi þurfa fyrirtæki sem sækja um greiðslustöðvun að leggja fram sérstaka áætlun um reksturinn, trúverðuga áætlun um að þau nái sér á strik aftur og leysi sín vandamál. Það er bara ekki hægt við þessar aðstæður. Óvissan er svo mikil að það er engan veginn hægt. Þarna er skilyrði sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki, í þeirri aðstöðu sem þau eru núna, geti fengið þetta úrræði. Það þarf auk þess að útvíkka ráðstöfunarheimildir fyrirtækja í endurskipulagningarferlinu í samræmi við þarfir fyrirtækjanna sem þurfa m.a. að geta tekið rekstrarlán og veðsett eignir í þeim tilgangi að geta haldið rekstri sínum gangandi. Það þarf að breyta tímafrestum hvað heimild til endurskipulagningar varðar. Samkvæmt gildandi lögum þarf dómari að samþykkja áframhaldandi greiðslustöðvun á allt að þriggja vikna fresti. Lögmenn hafa lagt til í greinaskrifum sínum undanfarið, þeir sem hafa talað fyrir því að greiða götu fyrirtækja hvað þetta úrræði varðar, að þessu verði breytt og heimildin verði veitt til þriggja mánaða í senn. Þeir telja enn fremur að það sé mikilvægt að ábyrgð stjórnenda verði takmörkuð með þeim hætti að þeim sem stýra lífvænlegu fyrirtæki verði heimilt að sækja um endurskipulagningu án þess að það verði metið þeim til sakar þó svo að fyrirtækið sé ekki greiðslufært. Það sé enda ljóst að fylgi stjórnendur slíkra fyrirtækja lagaskyldum sínum og gefi bú fyrirtækjanna til gjaldþrotaskipta verði lítið eftir af fyrirtækjum í okkar ágæta landi á næstu mánuðum.

Herra forseti. Það er mín skoðun að það sé afar skynsamlegt, og fleiri hafa talað fyrir því, að einfalda reglur um greiðslustöðvun í núverandi aðstæðum. Breytingar á skilyrðum greiðslustöðvunar munu sannarlega hjálpa einhverjum fyrirtækjum að komast í nauðsynlegt skjól til að endurskipuleggja rekstur sinn og það munar um hvert einasta fyrirtæki í þessum aðstæðum. Það þarf að fara fram vinna við að endurskoða lögbundin úrræði fyrir heimilin og fyrir fyrirtækin sem geta mögulega notað gildandi úrræði en að við þurfum ekki að fara í umfangsmikla lagasmíð eins og ég nefndi í upphafi. Úrræði um greiðslustöðvun hentar mjög vel en skilyrði laganna eru þannig að óvissa er um það hvort fyrirtæki sem hafa lent í veirufaraldrinum og eru tekjulaus geti nýtt sér það og það er mjög bagalegt.

Staðan í dag er þessi: Það er alls kostar óvíst að fyrirtæki uppfylli skilyrði fyrir greiðslustöðvun miðað við óbreytta löggjöf og við því þurfa stjórnvöld að bregðast strax. Mikilvægast af öllu er að sjálfsögðu að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot innan ferðaþjónustunnar og aðgerðir ríkisstjórnar verða allar að taka mið af því. Auk þess þarf að endurskoða ákvæði um vanskil, þ.e. að stjórnendur fyrirtækjanna sjái ekki fram á að þurfa að sæta refsingu dragist að greiða opinber gjöld o.s.frv., sem er því miður raunin að gæti hreinlega brostið á. Það er fullkomlega óeðlilegt við þessar aðstæður að menn þurfi að sæta því.

Mig langar aðeins að koma inn á bankana í þessu sambandi. Það hefur komið fram, ég held hjá KPMG endurskoðun, að lán bankanna til ferðaþjónustunnar séu u.þ.b. 250 milljarðar kr. Við það bætast síðan óbein lán til fasteignafélaga sem eru að leigja aftur til ferðaþjónustunnar og þar fyrir utan eru fjárfestingar lífeyrissjóða og annarra í gegnum sjóði og skráð félög. Bókfært eigið fé bankanna miðað við árslok 2018 var um 630 milljarðar kr. Nú hafa okkur borist fréttir af því að á þessum ársfjórðungi séu bankarnir að skila tapi, bæði Íslandsbanki og Arion banki hafa tilkynnt það, þannig að rekstur bankanna hefur breyst mjög á skömmum tíma vegna þeirra aðstæðna sem upp eru komnar. Með öðrum orðum: Ef eigið fé bankanna er um 630 milljarðar kr. er versta sviðsmyndin sú að 50% af eigin fé bankanna myndu hverfa ef öll lán ferðaþjónustunnar myndu tapast. Það hafa hins vegar verið uppi hugmyndir frá hagsmunasamtökum um að afskrifa þessi lán. En það gengur ekki upp að mínum dómi. Kröfuhafar þurfa einfaldlega að breyta kröfum í hlutafé og síðan er, eins og hefur komið fram, m.a. frá ráðherrum, ógjörningur að bjarga öllum. Það eru einhver fyrirtæki sem koma til með að fara í þrot, það er óhjákvæmilegt, félög sem voru skuldsett fyrir veirufaraldurinn.

Herra forseti. Miðflokkurinn hefur frá upphafi þeirra efnahagslegu hamfara sem nú ganga yfir þjóðina vegna veirufaraldursins lagt áherslu á að gripið verði tímanlega til stórra og almennra aðgerða, svo lágmarka megi það efnahagslega tjón sem við stöndum frammi fyrir. Ríkisstjórnin ákveður hins vegar að grípa til margra takmarkaðra aðgerða sem gerir það erfiðara nú en áður að ná því skjóli fyrir atvinnulífið og heimilin sem nauðsynlegt er.

Miðflokkurinn hefur á fyrri stigum þessa máls í samstarfi við minni hluta fjárlaganefndar og á þessum vettvangi lagt fram breytingartillögur sem allar hafa verið felldar af ríkisstjórnarflokkunum. Auk þess hefur flokkurinn birt í fjölmiðlum fjölmargar tillögur og ábendingar ásamt því að senda forsætisráðherra og forsætisráðuneytinu tillögur líkt og óskað var eftir að yrði gert í tölvupósti. Ein af þeim tillögum sem flokkurinn hefur kynnt er að fella niður tryggingagjaldið fram að áramótum og mun flokkurinn flytja breytingartillögu þess efnis við frumvarp til fjáraukalaga.

Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og er nú ein sú hæsta á Norðurlöndum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir umtalsvert eftir efnahagshrunið 2008, eins og við þekkjum, í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Þær skattbreytingar hafa hins vegar fest sig í sessi og mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið. Það er einn af stóru tekjustofnum ríkissjóðs. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni slíkra fyrirtækja mest. Bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg og sérstaklega nú þegar við stöndum frammi fyrir efnahagskreppu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega lögð áhersla á að lækka tryggingagjaldið. Það er mjög mikilvægt að því verði fylgt eftir. Samtök iðnaðarins hafa ályktað á þann veg.

Eins og kunnugt er er tryggingagjaldið sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað á undanförnum árum og mikil óvissa er fram undan hvað það varðar. Sú þróun er sýnilega minni í verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki. Fyrir efnahagshrunið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var síðan hækkað í 8,65%. Staðreyndin er sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en því var ætlað. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, því hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, því dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið. Gjaldið dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf, eins og ég nefndi áðan. Vaxtamöguleikar einkafyrirtækja eru því hindraðir með háu tryggingagjaldi. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga.

Nú erum við í þeim aðstæðum að það munar um hvert einasta starf og störf verða ekki til af sjálfu sér. Stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr atvinnuleysinu sem er í sögulegu hámarki og tímabundin niðurfelling tryggingagjalds, eins og Miðflokkurinn leggur til, gerir fyrirtækjum auðveldara með að halda í starfsfólk sitt á erfiðum tímum og ráða nýtt starfsfólk sem eykur síðan skatttekjur ríkissjóðs þannig að það er sannarlega mikill ávinningur af niðurfellingu gjaldsins tímabundið.

Tekjur af tryggingagjaldi voru áætlaðar um 100 milljarðar fyrir eitt ár og á sex mánaða tímabili eru það um 50 milljarðar. En þegar annar hver maður er orðinn atvinnulaus er nokkuð ljóst að það kostar ekki ríkissjóð 50 milljarða að afnema gjaldið út árið. Nær væri að það kostaði u.þ.b. 25 milljarða og síðan er það hvetjandi fyrir fyrirtækin að ráða inn starfsmenn og vonandi geta þau gert það í framhaldi af því að hafa auknar ráðstöfunartekjur. Því má ætla að það skili ákveðinni upphæð í ríkissjóð. Við teljum nærri lagi að það kosti u.þ.b. 10–12 milljarða að fella tryggingagjald niður tímabundið fram að áramótum. Það er lítil upphæð í samanburði við það sem þegar hefur verið gert. Ég nefni uppsagnarleiðina sem kostar ríkissjóð rúma 30 milljarða, upp undir 37 milljarða.

Herra forseti. Ég hvet að lokum ríkisstjórnina til að íhuga það vandlega (Forseti hringir.) að fella niður tryggingagjald fram að áramótum og styðja breytingartillögu okkar við fjáraukalög sem mælt verður fyrir á morgun.