150. löggjafarþing — 99. fundur,  6. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[20:34]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta snaggaralega svar sem var skýrt og skorinort. Það þarf enginn að fara í grafgötur um afstöðu hv. þingmanns til þessa máls og er það vel.

Mig langar í framhaldi af þessu að minna á að þegar fólk missir vinnuna þá minnka ekki þar með ýmsar fjárhagslegar skuldbindingar sem það hefur. Jafnvel þó að fólk hafi verið á góðum launum hefur það eftir sem áður sínar miklu skuldbindingar. Það þarf eftir sem áður að brauðfæða fjölskyldu sína, það hefur marga munna að metta. Það þarf að standa straum af ýmsum kostnaði vegna barna sinna og þar fram eftir götunum. Kostnaðurinn við lífið minnkar ekki við að verða atvinnulaus og þess vegna er svo mikilvægt að samfélagið í heild horfist í augu við það og taki í árarnar með fólki þegar svo háttar. Það er gríðarlegt áfall fyrir fólk að verða atvinnulaust. Það getur verið sálrænt áfall, það er félagslegt áfall og það er mjög erfið reynsla sem margir hafa lýst sem í því hafa lent. Ef við það bætast stórfelldar áhyggjur af afkomu fjölskyldunnar, af börnum og af því að missa hugsanlega heimili og húsnæði ber samfélaginu í heild skylda til að sjá til þess að þær áhyggjur verði sem minnstar.