150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

kostnaður við nýjan Landspítala.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skal ganga eftir því að svör við þessari fyrirspurn verði kláruð sem fyrst og komið til þingsins. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa skilning á því að breyttar aðstæður hafa gert okkur erfitt fyrir að sinna öllum verkefnum. En mig langar til af þessu tilefni að freista þess að átta mig á því hvort hv. þingmaður er að tala um kostnaðaráætlun fyrir meðferðarkjarnann einan og sér sem hefur mest verið rætt um, þ.e. nýju byggingarnar, og hvað það kostar að byggja og reisa nýju byggingarnar við Landspítalann eða hvort hv. þingmaður er að tala um hlutina í stærra samhengi sem myndi þá taka til endurgerðar á öllum gömlu húsunum sömuleiðis, umbreytingu á þeim í nýjum tilgangi þeirra. Við getum tekið t.d. öll gömlu húsin við Landspítalann þar sem við munum færa starfsemi yfir í nýja meðferðarkjarnann og tengd hús og enn á eftir að svara almennilega. Hvað ætlum við að gera við þessar byggingar inn í lengri framtíð? Og svo hefur það líka verið þannig að kostnaðaráætlanir um byggingu nýs Landspítala hafa ekki fram á þennan tíma — við höfum reyndar rætt aðeins um þetta við gerð fjármálaáætlunar á undanförnum árum — tekið að fullu tillit til allra nauðsynlegra tækjakaupa sem Landspítalinn stendur frammi fyrir að þurfi að ráðast í á komandi árum. Þess vegna hefur það verið dálítið óljóst í almennri umræðu um kostnað við byggingu Landspítalans hvort menn eru bara að tala um kostnaðinn við nýjar byggingar eða þörf fyrir ný tækjakaup á næsta áratug og svo líka endurbótakostnað vegna gamals húsnæðis og kostnað sem mun falla til við að koma því í nýtt hlutverk, þ.e. gömlu byggingunum.