150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

726. mál
[11:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég styð þessar tillögur. Ekki getur maður hugsað sér að styðja ekki tillögur til að koma til bjargar fjölda fólks og fyrirtækjum sem vonandi verða til þess að efla hér atvinnulíf og láta þetta samfélag ganga. Ég verð þó að hafa orð á því að mér hugnast illa hversu lítil yfirsýn er yfir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að ráðast í. Sviðsmyndagreining virðist vera afskaplega fátækleg, stjórnarþingmenn sem og stjórnarandstöðuþingmenn virðast vera í algjöru myrkri um hvaða áhrif einstakar aðgerðir hafa á framtíð Íslands.

Því miður er greiningarvinna í skötulíki og mér hugnast illa slík vinnubrögð. Þetta eru ofboðslegir fjármunir sem við erum að ákveða að ráðstafa út í samfélagið. Það er nauðsynlegt að bregðast við en það er líka nauðsynlegt að vanda sig þegar svona risastórar aðgerðir eru framkvæmdar.

Engu að síður styð ég málið.