150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[12:30]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég fari aðeins í það sem kemur að ríkisstjórninni þá sinnir hæstv. heilbrigðisráðherra eðlilega þeim mikilvæga þætti sem snýr að heilbrigðismálunum. Það er sérstakur hópur á vegum ríkisstjórnarinnar um ferðatakmarkanir. Ég held að ég geti fullyrt að við ræðum þetta á hverjum einasta fundi ríkisstjórnarinnar og sömuleiðis vinna ráðuneytisstjórarnir þétt saman og á milli ráðherra þannig að það ber engan skugga á þetta samstarf. Í mínum huga liggur þetta svona: Við viljum ekki taka óþarfaáhættu. Það er uppleggið í þessu. En sömuleiðis verðum við að passa það að við séum með þegar hlutirnir fara að gerast. En síðan er hitt að við getum gert ákveðna hluti ein. Ég veit ekki hvort þetta svarar algerlega spurningunni, en það eru bara allir að róa í sömu átt, það er svona stutta svarið, af augljósum ástæðum og samstarfið er mjög gott hvað þetta varðar og annað.