150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

utanríkis- og alþjóðamál.

749. mál
[15:47]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóðar ræður og líka fyrir þrautseigjuna og gefa ekki þumlung eftir og taka aðra ræðu. Það finnst mér gott. Ef ég má hafa skoðanir á umræðunni þá held ég að við ættum að hugsa það í framtíðinni að skipta þessu upp. Þetta er svo víðfeðmt. Við erum náttúrlega að taka EES-málum sérstaklega en ég held að jafnvel þó að það væri sama skýrslan væri skynsamlegt að við tækjum bara ákveðna þætti fyrir í hvert skipti fyrir sig. En það er auðvitað þingsins að ákveða. Ég lýsi mig alla vega reiðubúinn til að gera það með þeim hætti.

Ég er sammála hv. þingmanni þegar hann vísar til þess að samráð og samtal hefði átt að vera á Norðurlöndunum fyrir lokun. Ég hef ekkert verið feiminn við að lýsa því yfir. Á sama hátt er ég sammála hv. þingmanni með Norðurlandasamstarfið, við höfum alltaf tækifæri en sérstaklega núna til að styrkja það og dýpka. Ég vonast til að skýrsla Björns Bjarnasonar sé liður í því. Á sama hátt sé ég tækifæri í heilbrigðismálum, svo sannarlega, jafnvel enn frekar í öryggis- og varnarmálum. Hv. þingmaður vísaði til netöryggismála og það er svo sannarlega vettvangur. Þingmaðurinn tók nokkurn tíma í að tala um fjarfundi og ég vil trúa því að þeir séu komnir til að vera. Auðvitað koma þeir ekki alveg í staðinn fyrir að fólk hittist. Það skiptir engu máli hvort maður er að hitta útlendinga eða Íslendinga. Ég hugsa að ef fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga myndu aldrei hittast í eigin persónu heldur væri bara um fjarfundi að ræða þá gengi það ekki jafn vel. Við þurfum alltaf á mannlegum samskiptum að halda, hvort sem það eru þingmenn sín á milli eða milli þjóða.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmanni og þeim áherslum og sérstaklega varðandi Norðurlandamálin. Ég veit að hv. þingmaður talar ekki bara í því efni heldur sömuleiðis framkvæmir eins og allir vita.