150. löggjafarþing — 100. fundur,  7. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er að vissu leyti svar að segja að það sé ákveðinn fjöldi starfsmanna o.s.frv. sem kemur inn í geðheilbrigðismálin sem útskýrir þá upphæð. En á bak við þá spurningu er hvort það mæti þörfinni. Það höfum við ekki hugmynd um. Um það á vinna Alþingis einmitt að snúast. Þegar framkvæmdarvaldið kemur og segist þurfa pening þurfum við að spyrja af hverju. Hver er væntur ávinningur af því að fjármagna þær aðgerðir sem framkvæmdarvaldið biður um að fá að fara í? Það er gegnumgangandi í fjáraukanum að svörin við því hafa ekki verið mjög ítarleg ef einhver. Tilfinningin sem ég fæ í þessu öllu er að í rauninni sé ríkisstjórnin dáldið að giska, að herma eftir aðgerðum sem ríkisstjórnir í öðrum löndum hafa notað og skjóta einfaldlega á upphæð sem virðist vera nægilega há til að friðþægja eitthvað.