150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Staðan í efnahagsmálunum, sem við þekkjum auðvitað öll, og sú kreppa sem við stöndum frammi fyrir er ekki bara djúp heldur af öðrum toga en fyrri kreppur og lausnirnar og aðgerðirnar sem þarf núna eru aðrar en við horfðum á árið 2008. Bráðavandi ferðaþjónustunnar er stórt verkefni, eitt það stærsta, og þar skiptir máli að bregðast við af öryggi með almennum gagnsæjum aðgerðum þar sem forsendurnar þurfa að sama skapi að vera viðskiptalegar. Á sama tíma er auðvitað staðreynd að atvinnuleysi rýkur upp og er í sögulegum hæðum.

Eitt af því sem stjórnvöld geta gert og eiga að gera er að leggja til framsæknar aðgerðir með það að markmiði að lyfta eftirspurn innan lands. Fram undan er íslenskt ferðasumar enda ljóst að ferðalög til útlanda verða lítil og sennilega engin. Í því felst ákveðið tækifæri innan lands í þeirri erfiðu stöðu sem er uppi.

Ríkisstjórnin hefur kynnt þá aðgerð að senda öllum 18 og eldri 5.000 kr. ferðatékka. Það er góð aðgerð en hún er fremur kraftlítil. Ég held að hún nemi innan við 0,2% af heildarveltu greinarinnar og það er ef allir nýta þennan tékka. Ferðaþjónustan þarf mjög á innspýtingu að halda og þegar við blasir að landsmenn munu ekki ferðast til útlanda í sumar hefði mátt og átt að fara af mun meiri krafti í þá almennu aðgerð að hvetja til ferðalaga innan lands og gera fjölskyldunum það mögulegt.

Þessi aðgerð hefði átti að vera stærri og kraftmeiri því að hún getur komið fleirum af stað og stutt þannig við ferðaþjónustuna, stutt við atvinnulífið okkar, stutt við byggðirnar og fjölskyldur landsins, stuðlað að því að skapa gott íslenskt ferðasumar fyrir fólkið í landinu. Hún gæti verið góð og almenn aðgerð fyrir okkur öll, þjóðina alla, og um leið tækifæri til að kynna íslenska ferðaþjónustu fyrir þjóðinni. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvers vegna þessi góða hugmynd hafi verið útfærð á þennan máttlausa hátt. Þegar á reynir samsvara 5.000 kr. ekki meira en ísbíltúr fyrir meðalfjölskyldu.