150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara ítreka það sem kemur fram í nefndaráliti: Það mun koma til okkar kasta aftur þegar kemur að því að endurskoða lokunarstyrkina, a.m.k. gagnvart þeim sem var gert að loka lengur og eru lokaðir enn í dag samkvæmt ákvörðun stjórnvalda.

Svar mitt við spurningunni hvort hv. þingmaður, framsögumaður nefndarinnar, haldi að það gangi betur að semja við viðskiptabankana um stuðningslánin heldur en um brúarlán, er einfalt: Já. Ég hygg að það eigi ekki að taka mjög langan tíma og ástæðan er að það er í rauninni búið að vinna heimavinnuna, þegar kemur að þeim þáttum sem þarf að líta til, í brúarlánavinnunni. Nú hafa allir stóru viðskiptabankarnir, Íslandsbanki, Arion banki og Landsbanki, skrifað undir samning við Seðlabankann og ég á von á því að nú taki bankarnir til við að veita brúarlán til þeirra sem uppfylla (Forseti hringir.) þær kröfur sem til þeirra eru gerðar vegna þess að ég lít þannig á að (Forseti hringir.) íslensku bankarnir og viðskiptabankarnir séu hluti af lausninni.