150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:14]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að fara yfir allt sem ég er ósammála hv. þingmanni um í ræðu á eftir þar sem mér mun ekki endast tími til að fara yfir öll efnisatriðin sem við gætum spjallað um. Ég hjó eftir því, bæði í ræðu hv. þingmanns og í andsvörum hans við annan hv. þingmann, Halldóru Mogensen, að hann stakk upp á því að þjóðin eða kjósendur fengju eitthvað um þetta að segja.

Mig langar að forvitnast um það hvernig hv. þingmaður sér það nákvæmlega fyrir sér. Til að gefa honum einhverjar hugmyndir um hvernig það getur virkað er t.d. hægt að hafa ákvæði í stjórnarskrá um að þjóðin geti kallað eftir bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem Alþingi gæti samþykkt. Ég hef ekki orðið var við mikinn stuðning við það frá hv. þingmanni. En það sem er mikilvægt þar er að þar eru ákveðnar forsendur gefnar, ekki bara hvað einum og einum þingmanni finnst að gæti vakið áhuga einhverra hv. kjósenda, heldur er þar eitthvert ferli, einhver skýr viðmið sem miðað er við.

Það sama er að segja um sveitarstjórnarstigið. Í lögum segir að hægt sé að kalla eftir íbúakosningu um einstök mál upp á 20% eða hærra. Píratar hafa lagt fram frumvarp um að heimila sveitarfélögum að breyta því hlutfalli þannig að það geti verið lægra. Með öðrum orðum, að auðvelda íbúum sveitarfélaganna að taka beinan þátt í ákvörðunum eins og væntanlega þeirri að byggja hina eða þessa stofnunina hér eða þar, geri ég ráð fyrir, innan marka þess sem við getum leyft okkur út frá frelsi einstaklingsins og jafnvel samkvæmt lögum.

En hv. þingmaður heldur fram þeirri hugmynd að leita ráðgjafar kjósenda. Mig langar að vita hvernig. Meinar hv. þingmaður skoðanakannanir? Vill hann halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það eða gera könnun á Facebook eða vill hann fara eftir umsögnum sem sendar eru til Alþingis? Eða hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að virkja lýðræðið þegar kemur að ákvörðunum Alþingis almennt?