150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

628. mál
[17:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur og þeim hv. þingmönnum sem hér tóku til máls því að þetta er flókið mál. Orð eru dýr, sagði einhver einhvern tímann. Við erum að nota þetta hugtak með þeim ólíka hætti sem ég fór mjög hratt yfir í svari mínu þar sem við erum annars vegar t.d. að ræða það sem hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi hvað varðar vernd fólks gagnvart frelsissviptingu og hins vegar með töluvert almennari hætti þegar kemur að því að ræða þetta út frá mannlegri reisn. Það vekur alveg spurningar um það hvort ekki sé ástæða til að rýna hugtakanotkunina í íslenskum rétti. Ég er hins vegar sammála því sjónarmiði að þar þarf að fara varlega. Það er vandmeðfarið að breyta orðanotkun í lögum og rétti án þess að það kalli á heilmikla keðjuverkun. Mér finnst það gríðarlega gott mál að við séum að ræða þetta út frá þeim ólíku ráðherrum sem hér koma við sögu. Ég held hins vegar að hver sem hugtakanotkunin verður þá munum við þurfa að fjalla um rétt mannsins til mennskunnar, hvaða orð sem við notum yfir það, einfaldlega vegna þeirra tæknibreytinga sem við erum stödd í nú þegar, einfaldlega vegna þess hvernig gögn og upplýsingar um okkur eru orðin með allt öðrum hætti á einum áratug. Einfaldlega vegna þess hvernig sjálfvirknivæðingin á eftir að hafa áhrif á allt mannlegt samfélag verðum við einmitt að velta fyrir okkur þessum rétti til mennskunnar og kannski verður mannhelgi rétta hugtakið til að nota í þeirri umræðu. Ég held að þessi stutta umræða hér sýni okkur að þetta kallar á töluvert djúpa greiningu.