150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[13:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir fyrirspurnina. Hún á svo sannarlega rétt á sér.

Fyrir ekki svo löngu síðan, eða fyrir nokkrum árum, var settur upp hnappur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Svikahnappur, við kölluðum hann svikahrappshnapp og þar gastu sett inn og sagt frá svikurum, nafnlaust, og þurftir svo sem ekkert að gera grein fyrir þér. Því var mótmælt og kært til Persónuverndar. Þetta skeði eftir gífurlega umræðu sem kom fram í kjölfar skýrslu um svik, mig minnir að það hafi verið í Danmörku, sem var heimfærð yfir á íslenskan mælikvarða og tekin þar út. Og sú umræða var svo skrumskæld. Niðurstaðan varð sú að það væru milljarðasvik í þessu blessaða kerfi, sem var algjört rugl. Tryggingastofnun ríkisins fór í saumana á því, eins og leitað væri að nál í heystakki, til að finna svikarana. Og hvað fundu þeir? Þeir fundu örfáa einstaklinga. Hvað voru þeir að svíkja? Jú, þeir voru að svíkja á grundvelli barnabóta, um að skrá sig í eða úr sambúð. Það voru örfáir Íslendingar sem fundust á þeim grundvelli, en það fannst ekki einn einasti sem var að svindla sér inn í þetta kerfi til að græða á því. Það segir sig sjálft. Þú getur ekki grætt á því að svindla þig inn í almannatryggingakerfið vegna örorku. Það er vonlaust. Það er alltaf tap.