150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Morðið á George Floyd var enn einn dropinn í barmafullan bikar kynþáttamisréttis og lögregluofbeldis gagnvart svörtum Bandaríkjamönnum. Mótmæli og reiði almennings í kjölfar þessa voðaverks eru bæði skiljanleg viðbrögð við óréttlæti og ofbeldismenningu. Viðbrögð Bandaríkjaforseta, Donalds Trumps, þar sem hann hótar skotárásum á mótmælendur, þar sem hann hótar beitingu bandaríska hersins gegn bandarískum borgurum, eru ekki sæmandi forseta í lýðræðisríki og bera raunar merki um djúpa andstöðu forsetans við rétt borgaranna til að mótmæla.

Virðulegi forseti. Stuttu eftir að Donald Trump tók við embætti sagði ég í þessum ræðustól, með leyfi forseta:

„Ég hef áhyggjur af því að forseti Bandaríkjanna sé fasisti, kvenhatari og rasisti …“

Þessi ummæli vöktu athygli á sínum tíma og þótti hæstv. utanríkisráðherra t.d. tilefni til að segja þau óviðeigandi í kjölfarið.

Í millitíðinni hefur mikið vatn runnið til sjávar og núna hef ég ekki bara áhyggjur heldur tel ég mig vita að forseti Bandaríkjanna er fasisti, kvenhatari og rasisti. Og þó að ég viti að hæstv. utanríkisráðherra finnist óviðeigandi að kalla hlutina réttum nöfnum, og þó að ég viti líka að mögulega sé ekki heppileg utanríkisstefna að gera það nákvæmlega þá sakna ég þess að sjá ráðherrann og ríkisstjórnina gagnrýna Bandaríkjaforseta fyrir aðfarir sínar að lýðræðinu vestan hafs. Ég kalla eftir því að rödd Íslands á alþjóðavettvangi heyrist; gegn misrétti og gegn aðförum Bandaríkjaforseta að lýðræðinu þar í landi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)