150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir. Það er rétt, sem hún dregur fram, að formenn flokka hafa talað mjög skýrt í því að þau eru reiðubúin að mæta til þingstarfa hvenær sem á þarf að halda vegna brýnna Covid-mála. Eins og ég sagði áðan, í svari við hv. þm. Halldóru Mogensen, vona ég auðvitað að til þess þurfi ekki að koma. Ég tel að það sama gildi um júlí og svo tímann í september að ef einhver slík mál koma upp sem kalla á að Alþingi komi saman þá verður Alþingi kallað saman. Ég er ekki aðdáandi þess að beita bráðabirgðalögum sem ég tel í raun vera það sem hv. þingmaður er að spyrja um. Ég held því að við verðum öll að vera reiðubúin til þess en auðvitað vonum við bara að þessi áætlun geti gengið.