150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

þingsköp Alþingis.

840. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fær þetta mál til meðferðar og ég lýsti þeirri skoðun minni áðan að mér fyndist engin þörf á því að kalla til fjölda gesta til þess að ræða það hvernig Alþingi Íslendinga hagar sínum málum. Ég tel það fyrst og fremst vera okkar mál. Ég sé að sjálfsögðu ekkert að því að fjármálaráð komi til fundar við nefndina. Ég vænti þess að ráðið hafi ekki skipt um skoðun frá því að það sendi formönnum flokka álit sitt á málinu. Það getur þá farið yfir það álit í ítarlegu máli við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Hér segja ýmsir hv. þingmenn að þeim hugnist ekki að færa samkomudag. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að hafa næsta þing eins langt og mögulegt er. Þar verða mjög stór mál undir, m.a. frumvörp mín til breytinga á stjórnarskrá. Að sjálfsögðu hefði ég kosið sem lengstan tíma til að fjalla um þau mál, en það breytir því ekki að við munum þá fá skemmri tíma til þess að fjalla um þau og mörg önnur mál. Þess vegna legg ég áherslu á að tíminn fram undan á þessu þingi verði nýttur til að klára sem flest mál þannig ekki þurfi að mæla fyrir þeim aftur á næsta þingi.