150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

um fundarstjórn.

[16:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég vil benda á að meðan á samkomubanninu stóð og við greiddum atkvæði með því að fara í halarófu hérna í gegnum þingið til þess að fækka atkvæðagreiðslum þá gerðum við ýmsar undanþágur, þ.e. við heimiluðum þingforseta að virkja alltaf það ákvæði að gert sé út um mál, hvort teknar eru saman breytingartillögur — ef það eru einhver mál sem ekki eru komin á tíma en eiga samt að fá afgreiðslu gæti forseti lýst því yfir að það væri almennt samþykki fyrir því og sagt að það sé samþykkt ef enginn hreyfi andmælum. Þetta er 80. gr. þingskapalaga.

Nú er lífið komið í venjulegt horf þar sem við greiðum atkvæði í þingsalnum. Ég óska eftir því við forseta sem ég nefndi þetta við, ég geri það hér formlega og opinberlega, að frá þessu sé horfið og að við greiðum atkvæði um afbrigði ef mál þurfa að koma á dagskrá og slíkt, þannig að við förum ekki að festast í einhverju formi, að forseti geti farið að hafa þann háttinn á að hann lýsi því bara yfir að enginn hreyfi andmælum. Ég óska eftir því að við förum aftur að greiða atkvæði af því að það er hægt að misnota þetta. Ég hef oft komið í ræðustól og sagt að verið sé að samþykkja eitthvað með því bara að kasta því fram og það er samþykkt með afbrigðum. Forseti hefur ekki leyfi til að líta svo á að ég sé sammála um að þetta sé gert og þar af leiðandi getur hann ekki virkjað 80. gr. nema láta greiða atkvæði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)