150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

efnahagslegur ábati af opnun landsins.

[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að við birtum einfaldlega samantekt okkar eða eftir atvikum látum þinginu hana í té, alveg sjálfsagt. Þetta er ekki neitt leyniskjal, þetta er ekkert annað en það er gefið út fyrir að vera. Reynt er, með þeim annmörkum sem við erum háð, að leggja mat á hagrænu áhrifin.

Varðandi kostnaðinn lít ég þannig á að það sé mjög mikils virði fyrir okkur að fara varlega og að upplýsingarnar sem við munum afla, t.d. með skimunum, séu gríðarlega mikils virði. Það getur vel verið að við fáum slíkar upplýsingar að við getum tekið nýja ákvörðun sem byggð er á gögnum; skimunargögnum, rannsókn á því hvaða líkur eru á því í einhverju stóru mengi ferðamanna að það séu svo og svo mörg smit. Og ef líkurnar eru hverfandi getum við tekið nýja ákvörðun og sagt: Það er kannski ekki þess virði og kannski óþarfi (Forseti hringir.) að fara út í þessar miklu ráðstafanir. En það er stór ákvörðun sem maður tekur ekki bara sisvona án þess að hafa gögnin til að byggja ákvörðunina á.