150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Já, nefndin fór yfir þetta eins ítarlega og hægt er í ljósi stöðunnar, ef það svarar spurningunni. Það eru mjög margir óvissuþættir sem fylgja málinu og þess vegna fannst okkur mikilvægt að setja inn endurskoðunarákvæði til þriggja ára. Svo bætist náttúrlega við Covid-faraldur og fleira sem kallar á enn frekari óvissu og ekki nokkur maður getur séð fyrir fjölda nemenda, aldurssamsetningu og ýmislegt fleira. Það sem við vitum er að með lögum um Menntasjóð námsmanna verða svo sannarlega breytingar á starfseminni, hjá fólkinu sem annast þjónustu við námsmenn. En það er með það eins og annað að við getum ekki nákvæmlega séð fyrir hversu mikla fjölgun starfsmanna þetta mun kalla á þannig að meiri hlutanum þótti einmitt ástæða til þess að árétta það í nefndaráliti sínu að þetta væri atriði sem þyrfti að meta og sjá þegar starfsemin færi af stað með breyttu sniði hver þörfin yrði. Þetta kom einnig fram í ræðum okkar í 1. og 2. umr. um málið.