150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þingmaðurinn spurði út í mannhelgi, hvernig hún samræmdist lögum um þungunarrof. Í þeirri umræðu sem þá fór fram fór það a.m.k. ekki fram hjá mér og vonandi ekki öðrum þingmönnum, að hér takast á annars vegar mannhelgi móður, þ.e. réttur hennar til eigin líkama og réttur hennar til þeirrar heilbrigðisþjónustu sem hún óskar annars vegar, og hins vegar meintur réttur fósturs og hvenær sá réttur taki í rauninni við. Hvenær getum við skilgreint fóstur í móðurkviði lífvænlegt? Ég ráðlegg hv. þingmanni í þessu sambandi að lesa til að mynda umsögn Siðfræðistofnunar um málið frá því í fyrra, sem ég er ekki með í kollinum en ég man að þar var einmitt sérstaklega talað um það atriði. Ég tel að þetta samræmist ágætlega. Við erum í lögum um þungunarrof búin að skilgreina að persóna er í rauninni ekki til fyrr en barn fæðist. Þess vegna er í sjálfu sér ekki hægt að leggja að jöfnu mannhelgi einstaklings sem er lifandi fæddur og mannhelgi ófullburða fósturs í móðurkviði.