150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, heildarlausn og samþykkt áætlun. Ég held að það sé grundvallaratriði til þess að vel sé staðið að málum í þessum efnum, að bæta fráveitur um land allt. Ég sannfærðist um það í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar að það er mjög mikil sátt um þetta vinnulag. Það sem er nýtt frá fyrra átaki er að nú geta sveitarfélögin fengið styrki til undirbúnings og nauðsynlegra rannsókna og það getur náttúrlega verið fyrsti liðurinn í verkefninu. En það verklag að setja upp áætlun er líka liður í því að tryggja fyrirsjáanleika. Sveitarfélag setur upp áætlun þar sem fyrsta árið fer í rannsóknir, segjum það, og svo taka við mismunandi stór verkefni í þrjú, fjögur, fimm ár þar á eftir. Ef búið er að samþykkja áætlunina er gert ráð fyrir að þá taki við rafrænt kerfi þar sem sveitarfélagið sækir um styrk fyrir árlegri framkvæmd.

Ég tel að þetta verði í rauninni mun einfaldara í framkvæmd en við höfum upplifað í sambærilegum samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga hingað til. Þarna er Samorka í lykilhlutverki ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við sveitarfélögin og orkufyrirtækin og veiturnar um allt land sem sinna þessum málum. Búið er að vinna ákveðna grunnvinnu sem skilar þessum verkefnum hratt af stað og kerfinu hratt í framkvæmd.