150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[14:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við styðjum málið og sömuleiðis allar breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram. Mig langar að þakka meiri hlutanum fyrir að taka tillit til athugasemda við 12. gr., um upplýsingaskyldu ríkisskattstjóra. Sú umræða átti sér stað við 2. umr. og er ágætt að ákvæðinu sé breytt á þann hátt sem meiri hlutinn leggur til. Þó get ég ekki annað en gagnrýnt það að í allsherjar- og menntamálanefnd var umræðan um 26. gr. varla til staðar. Meiri hlutinn komst að niðurstöðu áður en sá fundur var haldinn þannig að nefndin ræddi það ekki öll saman, sem ég hefði annars talið betra. Í samræmi við það ákvað meiri hlutinn ekki að leggja fram brottfall 26. gr. og vísa ég í 2. umr. til nánari skýringa á því. Því hef ég aftur lagt fram þá breytingartillögu að fella ákvæðið brott.

Ég segi að lokum að þótt ýmsir gallar séu á þessu frumvarpi, að mínu mati og fleiri, sér í lagi það að mér er ekki enn ljóst hvernig tryggja eigi framfærslu stúdenta, er þetta mjög jákvæð breyting og ég styð málið í heild.