150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:54]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Njáli Trausta Friðbertssyni, kærlega fyrir svarið og er glöð að heyra að hann sé til í að skoða þetta á milli umræðna. Í því samhengi kom sambærileg athugasemd frá Landsvirkjun varðandi einmitt mikilvægi þess að eftirlit sé haft með framvindu verkefna og mat gert á árangri þeirra og að öll skjöl með upplýsingum um verkefni og rekjanleika séu á hreinu. Þá var reyndar önnur áhugaverð athugasemd í umsögn Landsvirkjunar um mikilvægi þess að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um heimildir til að fella niður endurgreiðsluskyldu lántaka í tengslum við jarðhitaleit. Það sem er nefnilega svo áhugavert við Orkusjóð, og svo sem mjög marga aðra sjóði, er að hann styrkir svo ótalmargt, ólíka þætti orkuframleiðslu, mjög oft í því skyni að minnka t.d. olíunotkun sem hlýtur að vera markmið sem við tökum heils hugar undir. Það er samt sem áður mjög mikilvægt að það séu skýrar reglur og skýr rammi um hvernig það er gert og ég held reyndar að sjóðurinn hafi verið að gera það mjög vel fram að þessu. Telur hv. framsögumaður að ekki sé ástæða til þess að skoða þetta samhliða? Þetta er nánast það sama og Samtök iðnaðarins voru að benda á.