150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Ég hef ekki gert gildistíma neitt að umræðu. Ég geri mér grein fyrir að við erum seldir undir evrópskar reglur hér og það leiðir af sjálfu sér að fara að þeim reglum kallar á að hann takmarkist við 31. desember. Um það er enginn ágreiningur svo mér sé kunnugt um.

Ég er ánægður með hvað hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson lýsir miklum skilningi á því hvað ferðaþjónustan hefur verið mikilvæg fyrir íslenskt þjóðarbú. Reyndar er það svo að ég þekki engan mann sem hefur oftar og betur bent á mikilvægi til að mynda flugsins sem atvinnugreinar á Íslandi, sem hann þekkir mætavel vegna sinna fyrri starfa áður en hann tók sæti á Alþingi. Það er auðvitað sameiginlegt markmið okkar allra, geri ég ráð fyrir, að þessi mikilvæga atvinnugrein sem ferðaþjónustan er, og þar á meðal flugið, nái að reisa sig við. Sú fjárhæð sem hér er gert ráð fyrir — auðvitað er þessi tala, 5.000 kall, ekkert heilög, ekki frekar en 15 þúsund kall er einhver heilög tala. Þetta er ekkert um það. Við bendum hins vegar á að þessi upphæð er svo lág. Hún hefur orðið svolítið aðhlátursefni víða þar sem heyrst hefur, en hún væri það ekki ef hún færi upp í 15 þúsund kall. Miðað við mikilvægi greinarinnar og miðað við framlag hennar á undangengnum árum eru þessar tölur hvorar tveggja auðvitað mjög lágar. (Forseti hringir.) Ég leyfi mér að vona að þingmenn taki undir með okkur flutningsmönnum þessarar tillögu og (Forseti hringir.) styðji hana þegar þar að kemur.