150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Ég vil ekki fara í neina palladóma um vilja og viðhorf Reykjavíkurborgar til umferðarmála í umræðu um þetta mál, sem er í raun og veru mjög einfalt mál, frumvarp til laga um að formfesta félag sem á að sjá um að ná fram þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og ná fram úrbótum í samgöngumálum. Ég efast ekki um að allir sem að félaginu standa og stofna það koma af heilum hug að því.

Ef hv. þingmaður vill spyrja hvað ég efast um þá efast ég kannski helst um hvaða fjármunir verða til skiptanna á næstu árum. Þar ræður fyrst og fremst öllu hvernig okkur tekst að rísa aftur upp úr þeirri skyndilegu og óvæntu kreppu sem við erum í í dag. Það verður náttúrlega stóra málið og mun snerta þetta mál eins og öll önnur. Þá má hv. þingmaður heldur ekki snúa út úr, að við séum annaðhvort að fara í flýtigjöld eða endurskoðun skatta. Ég var að segja að við munum þurfa að endurskoða skattlagningu ökutækja. (Forseti hringir.) Það er í algjöru samhengi við það hvernig við munum breyta annarri skattlagningu á umferð í landinu. (Forseti hringir.)