150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

uppbygging og rekstur fráveitna.

776. mál
[16:59]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Bergþórs Ólasonar. Við sitjum saman í umhverfis- og samgöngunefnd og ólíkt því sem menn halda stundum höfum við staðið saman að því að afgreiða þetta mál og nefndin í heild sinni. Það er kannski dæmi um hvernig gengur stundum til á þinginu.

Mig langar að fara örfáum orðum um ákveðið mál sem fram kemur í frumvarpinu, sem er í heild sinni hið ágætasta framfaramál, þ.e. örplast. Í frumvarpinu er rætt um að kominn sé tími til að taka á plastmengun. Þá er aðallega verið að tala um plastmengun í svokölluðu ofanvatni. Menn vita jú að til verður mikið af örplasti og örögnum, reyndar ekki bara úr plasti, vegna umferðar á götum og vegum. Allt lendir það meira eða minna í sjó, ám eða stöðuvötnum. Aðalplastmengunin er annars vegar úr dekkjum bíla og síðan eru það plastagnir sem koma úr málningu, götumálningu og öðru slíku. Það eru annars konar agnir til viðbótar; malbiksagnir, sem eru mjög óhollar. Þær eru margar hverjar tjörukenndar, sót o.fl. Allt þetta, og örplastið þar með, lendir í viðtökunum sem ég nefndi.

Hreinsun á örplasti og örögnum úr ofanvatni þarf að fara fram með sérstökum aðferðum; settjörnum og hreinsunum úr þeim, förgun á því efni o.s.frv. En það sem hverfur hins vegar ofan í frárennslið lendir meira eða minna allt úti í sjó og væri mjög kostnaðarsamt að hreinsa það úr vatni sem lendir í svokölluðum skólphreinsistöðvum. Það er auðvitað hægt með ærnum tilkostnaði.

Stóra spurningin er því kannski ekki sú hversu miklar fjárhæðir ætti að leggja í hreinsun á ofanvatni og skólpi heldur hvernig hægt væri að minnka örplastið. Það er auðvitað hægt að gera með ýmsu móti. Þar geta nagladekkin verið undir, hægt er að minnka notkun þeirra. Eins orkuskipti þar sem brunavélar eru ríkjandi. Síðan er eitt og annað sem tengist götumálun, bæði nauðsynleg götumálun, eins og hvítar línur og annað slíkt, en líka þar sem verið er að mála götur eins og gert er í Reykjavík með því að mála hálfan Laugaveginn eða rúmlega það. Allt lendir þetta með veðrun og rofi smám saman í sjó eða öðrum viðtökum og það er ekki gott. Götumálun verður þá að minnka án þess að gefa einhvern afslátt af öryggi vegfarenda.

Ég nefni þetta vegna þess að mig langar að hvetja umhverfis- og auðlindaráðuneyti til þess, þó að ekki komi beinlínis skipun frá Alþingi um það, að setja á laggirnar lítinn starfshóp sem tæki á þessu sérstaka verkefni sem ætti að vera innan þess ramma sem við ráðum við, þ.e. að nota viðurkenndar aðferðir til að ná örplasti og öðrum smáögnum úr ofanvatni af götum.

Þetta er hvatning til ráðuneytisins um að sinna þessu máli af nokkru öryggi og myndugleika.