150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

opinber fjármál.

842. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir mjög góðar spurningar. Hv. þingmaður hélt þessu sjónarmiði á lofti í umfjöllun fjárlaganefndar. Ég virði það sjónarmið vegna þess að eins og ég sagði í ræðu minni er tilgangur stefnu alltaf sá að skapa festu og halda okkur við efnið, sérstaklega við óvissuaðstæður. Hv. þingmaður spyr síðan af hverju við séum að draga þetta af því að lögin segja að okkur beri að koma endurskoðaðri stefnu á svo fljótt sem auðið er. Ég held að allir aðilar sem rætt hafa um málið segi, og það kemur m.a. skýrt fram í áliti fjármálaráðs, að efnahagslegar forsendur sem slík stefna er reist á séu í fullkominni óvissu. Ég myndi frekar vilja ræða þær áhyggjur sem birtast í áliti fjármálaráðs um að jafnvel þótt vonir standi til að við höfum einhverjar raunhæfar hagtölur, ekki bara sviðsmyndir heldur hagspá eins og 8. gr. laga um opinber fjármál segir okkur að fara eftir og reisa slíka stefnu á þannig að hún sé haldbær, og hún geti verið sá grundvöllur fyrir fjármálaáætlun og fjárlög sem henni ber, verði til staðar núna í júní og júlí og ágúst á þeim tíma þegar ráðuneyti og stofnanir þurfa að skila sínu, ef við horfum á þessa praktísku hluti. Ég ætla að koma að spurningunni um gagnsæi, sem er mjög góð, í seinna andsvari.