150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[21:11]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi að ég væri þess umkominn að svara hv. þingmanni hvort ég telji að þetta eða hitt frumvarpið verði afgreitt fyrir þinglok. Ég hef bara ekki hugmynd um það. Ég er ekkert viss um að það séu mjög margir í þessum sal í kvöld sem eru þess umkomnir að veita svar við því. Það kann vel að vera að frumvarpið nái fram að ganga en það væri þá á methraða.

Ég hef lýst efasemdum mínum. Hæstv. ráðherra hefur vitað af þeim efasemdum frá upphafi, áður en að frumvarpið var lagt fram þannig að það sé sagt. Ég er örugglega ekki eini maðurinn sem hefur ákveðnar efasemdir. Ég er hins vegar ekki að segja að hugmyndafræðin að baki þessu máli sé vond. Síður en svo. Það eru ákveðin rök fyrir því að veita hlutdeildarlán. En það verður að gera það skynsamlega. Hér eru innbyggðar reglur sem koma í veg fyrir og vinna beinlínis gegn yfirlýstum markmiðum. Auk þess er svo margt óljóst. Ég skil ekki hvernig menn ætla að tryggja hér jafnræðisreglu. Ég ætla ekki að taka þátt í því að samþykkja frumvarp þar sem ég get ekki verið öruggur um að allir séu jafnir fyrir þeim lögum sem sett eru og það skuli jafnt yfir alla ganga sem uppfylla þau skilyrði sem lögin gera kröfu til varðandi fyrirgreiðslu sem við erum að veita sameiginlega. Þótt fólk uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögunum er engin trygging fyrir því að það fái fyrirgreiðsluna og það veit ekki einu sinni af hverju það fær hana ekki.