150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er til að koma í veg fyrir kostnað almennings. Með því að setja þessi lög erum við að nota almannafé til að ná þessum markmiðum þannig að tímanum sem við notum til að passa upp á að vel sé farið með almannafé er vel varið. Að því sögðu skil ég vel að erfitt sé að meta kostnað vegna þessara aðgerða og á þeim nótum skil ég að slíkt kostnaðarmat yrði ekki hárnákvæmt, alls ekki. Ég myndi hins vegar vilja sjá eitthvert viðmið og það þarf ekkert að eyða neitt rosalega miklum tíma í það, ef mati á áhrifum fylgir að þetta sé flókið mál og aðeins hægt að setja upp mjög einfalda sviðsmynd varðandi viðmið sem sett eru. Við ættum að vita u.þ.b. hversu mörg fyrirtæki eru þarna undir. Þá er hægt að giska gróflega á hversu mörg fyrirtæki myndu fara alla leið í þessum úrræðum og getum sagt að það þýði 2 milljarða. Ef sú sviðsmynd bregst þýðir það að framkvæmdarvaldið kemur aftur og segir: Fyrirgefið, þetta var allt of vanmetið. Ef það var ofmetið er það fjárheimild sem er ekki fullnýtt. Allt í fína lagi með það. Þetta snýst um að setja framkvæmdarvaldinu mörk sem gera að verkum að þegar áætlanir standast ekki þarf það að koma til þingsins og segja: Áætlanir stóðust ekki, við þurfum meira fjármagn o.s.frv., er þingið tilbúið til þess eða ekki?