150. löggjafarþing — 117. fundur,  15. júní 2020.

tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar atvinnufyrirtækja.

814. mál
[17:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er engin teoretísk umræða. Þetta er einfaldlega samkvæmt lögum um opinber fjármál. Framkvæmdarvaldið þarf að fara eftir lögum og skila svona kostnaðarmati og ýmsu fleira sem varðar stefnumörkunina og áhrifin sem stefna stjórnvalda og lagasetning hins opinbera hafa á ríkissjóð. Skylda okkar er tvímælalaust að passa upp á að vel sé farið með almannafé. Við hljótum að gera þá lágmarkskröfu, þegar stjórnvöld ætla að nota almannafé til að passa upp á sósíalismann í fyrirtækjum, að segja fólki hvað það kostar. Þegar allt kemur til alls er það fólkið sem kemur til með að borga fyrir þetta. Það skiptir máli í meðferð málsins hvort þetta séu skuldbindingar upp á 2 milljarða eða 200 milljarða. Líklega er önnur talan allt of lág og hin allt of há ef maður á að giska á eitthvað.

Ég hef mjög mikinn skilning á óvissunni í greiningu á þessum atriðum sem er farið yfir í frumvarpinu. Það afsakar hins vegar hvorki þau vinnubrögð stjórnvalda að setja sér ekki viðmið áður en þau ætla að koma aftur til þingsins, setja ekki ákveðin stærðarviðmið, né þingsins og nefndarinnar að setja ekki sömu takmörk. Nefndin á að gera það samkvæmt lögum, ekki samkvæmt einhverri teoríu.